Bestun í blæðingu laxfiska

Deila:

Nýtt verkefni er nýhafið hjá Matís. Verkefnið snýr að bestun í blæðingu laxfiska enda umtalsverð verðmæti sem skapast og aukast við góða blæðingu.

Markmið verkefnisins Bestun í blæðingu laxfiska er að bæta blæðingu laxfiska með endurbótum á núverandi aðferðum og þróa hagkvæma leið til að hreinsa vinnsluvatn sem verður til við slátrun, blóðgun og slægingu. Ætlunin er að þróa aðferð sem varðveitir lífvirk efni úr vinnsluvatni sem hægt verður að nýta í verðmætar afurðir en slíkt aðferð tryggir gæði afurða og stuðlar að umhverfisvænni framleiðslu.

Byrjað verður á gangasöfnun þar sem meðal annars verður skoðað það sem Norðmenn hafa verið að gera þegar kemur að blæðingu laxfiska. Skoðaður verður mismunur á milli mismunandi blæðingaraðferða en auk þess verður efnasamsetning blóðsins rannsökuð með efnagreiningum sem unnar eru á efnarannsóknastofu Matís.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Arnarlax, Arctic Protein og Háskóla Íslands en verkefnastjóri er Gunnar Þórðarson hjá Matís. Auk hans koma að verkefninu frá Matís Magnea G. Karlsdóttir, Hildur Inga Sveinsdóttir, Ásbjörn Jónsson og Sigurjón Arason.

Verkefnið hófst í apríl sl. og lýkur í september 2020 og er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis.

 

Deila: