Gríðarlega góðar breytingar á strandveiðikerfinu

Deila:

„Breytingarnar á strandveiðikerfinu hafa verið gríðarlega góðar fyrir okkur á þessu svæði. Við getum fengið fleiri róðra en nokkurn tíma áður í hverjum mánuði. Nú megum við róa í allt að 12 daga í hverjum mánuði. Hingað til höfum við verið að fá þrjá til 11 daga á sjó í mánuði. Og svo er þetta með veðrið. Nú getum við haldið okkur í landi þegar viðrar illa og ég er til dæmis búinn að vera í landi fjóra daga í maí vegna slæms veðurs, sem ég hefði annars farið á sjó. Nú fer maður ekkert út í tvísýnu eins og áður var. Þá var ónotaður dag tapaður dagur. Nú velur maður bara dagana og getur ákveðið að láta klukkuna ekki hringja á sig ef spáir illa. Mér finnst þetta gríðarlega góð breyting.“

Bergvin Sævar Guðmundsson

Þetta segir strandveiðimaðurinn Bergvin Sævar Guðmundsson í Grundarfirði. Hann gerir út Sómabátinn Sif SH og rær á svæði A, sem nær frá Miklaholtshreppi yfir í Súðavíkurhrepp. „Ég er eiginlega búinn að vera á strandveiðum frá upphafi. Þetta er bara vinnan mín á sumrin. Mér hefur bara gengið mjög vel í gegnum árin, mjög vel. Ég næ yfirleitt alltaf skammtinum þegar ég fer út.“
Á næsta ári hefur Bergvin Sævar stundað sjóinn í 40 ár og er sjómennskan hans ævistarf. Bátinn á hann með bróður sínum Birgi.

Mega róa 12 daga í mánuði

Eftir breytingarnar er kerfið þannig að róa má 12 daga í hverjum mánuði frá maí og út ágúst og til þess eru 16 dagar, það er mánudagur til fimmtudags í hverri viku svo fremi sem einhver þeirra daga sé ekki almennur frídagur. Þessu mynstri má síðan halda út ágúst sem er síðasti mánuður strandveiðanna, eða þar til hámarksafla er náð, en það er 10.200 tonn af óslægðum fiski. Nú er ekki gefið út ákveðið hámark fyrir hvert svæði fyrir hvern mánuð í senn eins og var. Þegar því hámarki var náð á hverju svæði, voru veiðar stöðvaðar. Hver veiðiferð má eftir sem áður ekki standa lengur en í 14 tíma og leyfilegur hámarkafli í þorski í róðri er 650 kíló miðað við slægðan fisk, eða um 770 af óslægðum.

Bergvin segist vera mjög ánægður með þetta fyrirkomulag og telur nokkuð víst að heildaraflinn dugi út sumarið. „Reyndar hefur aflinn verið tiltölulega lítill í má vegna veðurs. Það séu til dæmis ekki margir sem nái þessum 12 dögum. Það hefur bar verið alveg skelfileg tíð. Ég man ekki eftir svona vondri tíð á strandveiðum í maí. Bara hvassviðri og leiðindi.“ Þegar rætt var við hann var hann búinn að róa átta daga og kominn með 5-6 tonn.

Sáttur við síðasta verð

Fiskurinn af strandveiðibátunum fer yfirleitt á fiskmarkaði. Bergvin segir að verðið hafi verið lélegt framan af en sé eitthvað farið að hækka undir lok mánaðarins. Hann hafi til dæmis verið mjög sáttur við síðasta verð sem var um 250 krónur. Í byrjun maí fór verðið hins vegar alveg niður í 180 kall. Hann segir að þeir hafi reynt það í fyrra að setja fiskinn í gáma og flytja út slægðan með haus. Það hafi lánast ágætlega, en því fylgi ýmis kostnaður og vinna. Þrátt fyrir það sé sjálfsagt gróði af því og til þess geti komið aftur.

Fleiri dagar – meiri heimildir

„Ég heyri ekki annað en að menn séu almennt ánægðir með þessar breytingar hér á svæði A. Það er mjög mikil eining og sátt með þessar breytingar. Hins vegar skilur maður að menn fyrir austan séu ekki eins sáttir. Á svæði D til dæmis, sem nær frá Hornafirði að Akranesi, fá menn nú færri daga en áður. Það hefur verið þannig að ákveðinn skammtur hefur verið til veiða á hverju svæði. Á suðursvæðinu hafa bæði verið fáir bátar og veiðin léleg. Þess vegna dugði skammturinn út allan mánuðinn, sem þýddi að þeir gátu róið allt sumarið, 16 daga eða meira í hverjum mánuði meðan við höfum fengið þrjá til 11 daga. Þannig fækkar veiðidögunum hjá þeim, en fjölgar hjá okkur. Með því fá fleiri daga fáum við í raun meiri veiðiheimildir. Það skýrir í raun mismunandi afstöðu til breytinganna.“

Bergvin segir að mjög erfitt sé að reka strandveiðibát á aðeins 5 til 6 dögum í mánuði með 770 tonn að hámarki í róðri. Þá séu þetta ekki mörg tonn yfir sumarið sem menn geti tekið. „Í fyrra var ég til dæmis með aflahæstu mönnum á A svæði með 28 tonn en einhverjir komust í 29. Ég sleppti hins vegar tveimur róðrum í ágúst. Ég var búinn að ákveða utanlandsferð, þegar búið var að stöðva veiðarnar þá, en síðan bætti Þorgerður Katrín við 600 tonnum inn í kerfið ásíðustu stundu. Ég valdi að halda mínu striki og fara í frí.

Byrja á núllinu á vorin

Ég var því með eins góða afkomu af þessu og hugsast gat, en samt var ekkert eftir þegar ég var búinn að taka mér laun og greiða fyrir eðlilegt viðhald á bát og tækjum. Þannig að í raun og veru er maður að byrja á núllinu á vorin af því hve litlar heimildirnar hafa verið. Þá fer maður að hugsa sig um með þessi minni báta sem hafa minni tækifæri til að róa eftir fiski. Hvernig það sé hjá þeim sem ekki eru með svona mikinn afla. Það eru margir með miklu minni afla og aflaverðmætið þar af leiðandi miklu minna. Því hlýtur þetta að breyta alveg gríðarlega miklu fyrir allt þetta svæði hér. Þetta er langstærsta svæðið og nánast helmingur bátanna er á þessu svæði.“

Bergvin rær alltaf úr Grundarfirði og heldur sig innan Breiðafjarðarins. „Þegar líður á sumarið  fer ég norður undir Látrabjarg og þau svæði. Í maí er mjög stutt að róa, því þá er fiskurinn ekki genginn út af grunnslóðinni  og þá er maður bara í svokallaðri Grundarfjarðarbrún. Núna í vor tók þetta bara upp í tvo tíma að fá skammtinn. Maður var kannski kominn í land aftur milli sjö og hálf átta fyrstu róðrana. Svo gengur fiskurinn út og þá þarf að sækja lengra og lengri tími fer í hvern róður.

Hrúga trossunum í holurnar okkar

Svo lenti ég í því að þar sem besta fiskiríið var, kom stór netabátur og lagði yfir allar bleyðurnar sem við vorum á og tók yfir allt veiðisvæðið okkar. Hann hafði greinilega séð hvar við vorum að fiska. Við þurftum aðfara í land á fimmtudegi og þegar viðkomum út á mánudegi og ætluðum á veiðistaðinn okkar þar sem strandveiðiflotinn hafði verið og mokfiskað, var þar fyrir bátur með tíu trossur og búinn að taka allt svæði fyrir sig og sagði svo bara við einhverja menn sem gerðu athugasemdir við þetta að þeim væri svo drullu sama um þessa smábáta, gæti ekki verið meira sama. Maður getur náttúrulega ekkert gert í þessu en manni finnst þetta bölvaður dónaskapur. Að þeir stóru séu að miða út hvar litlu bátarnir eru að fiska og komi svo og hrúgi trossunum ofan í holurnar okkar. Við þurftum þá auðvitað að leita á önnur mið, fara lengra og hafa meira fyrir aflanum,“ segir Bergvin Sævar Guðmundsson.

Viðtal Hjörtur Gíslason. Viðtalið birtist fyrst í Sóknarfæri í sjávarútvegi, blaði sem Athygli gefur út.

 

 

 

Deila: