Tæknifyrirtækin vaxa hraðast í sjávarklasanum

Deila:

Enn eitt árið er vöxtur sumra tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi hreint ævintýralegur. Yfir heildina er vöxtur greinarinnar svipaður og árin á undan eða um 10-12%. Í þessari sjöttu árlegu samantekt Sjávarklasans á umfangi tæknifyrirtækja í klasanum verður fjallað um þróunina og horfur í greininni.

Stærstu fyrirtækin í tæknigeiranum eru sem áður Marel, Hampiðjan og Skaginn3X. Þarna á eftir koma síðan önnur hraðvaxandi tæknifyrirtæki á borð við Curio og Völku. Samkvæmt athugun klasans er velta þessara fimm fyrirtækja tæplega 40 milljarðar króna (sé aðeins horft til starfsemi þeirra er lýtur að sjávartengdum greinum). Þessi fyrirtæki velta því svipað og öll 60 tæknifyrirtæki sjávarklasans veltu í upphafi áratugarins. Fyrirtækin sem þarna koma á eftir eru m.a. fyrirtæki í kælingu. Eins og áður segir var veltuaukning hjá öllum stærstu tæknifyrirtækjunum og í sumum tilfellum var hún mæld í tugum prósenta.

Árið 2017 var á margan hátt gott hjá tæknifyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi, ekki síst á meðal þeirra sem vaxið hafa hvað hraðast á undanförnum 3-5 árum. Eins og nefnt hefur verið áður í greiningum klasans virðast stærri rekstrareiningar vera betur í stakk búnar til að keppa á alþjóðavettvangi. Þannig er hægt að bjóða heildstæðari lausnir. auka þróunarvinnu, og markaðssetningu og sinna betur þjónustu við viðskiptavini víðs vegar um heiminn.

Mjög ólíkar ástæður eru fyrir uppgangi tæknifyrirtækja. Sum hafa vaxið hratt í tækni fyrir fiskeldi, önnur í heildstæðum lausnum fyrir landvinnslu í hvít- eða uppsjávarfiski eða skipum. Enn önnur bjóða sérhæfðar lausnir í upplýsingatækni, vöktun, kælingu ofl sem hlotið hafa góðan hljómgrunn.

Tæknilausnir í hvítfiski hafa reynst góðar undirstöður fyrir þróun tæknibúnaðar fyrir eldisfisk. Ólíkt öðrum vexti tæknifyrirtækja hefur uppgangurinn í fiskeldistækni ekki verið nema að takmörkuðu leyti knúinn áfram af innlendri eftirspurn heldur góðu samstarfi við m.a. norsk fiskeldisfyrirtæki. Íslensku fiskeldisfyrirtækin eru þó að komast á þann stað að líklegt má telja að innan fárra ára muni þau verða komin með umtalsverða vinnslu hérlendis og í því felast ýmis tækifæri fyrir tæknifyrirtækin.

Enn og aftur reynist afar þýðingarmikið hversu ríka áherslu íslensk útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki leggja á tækniframfarir og nýjungar. Sú þróunarvinna, sem unnin hefur verið hérlendis í samvinnu útgerða og tæknifyrirtækja, leiðir ekki aðeins til aukinna gæða og framleiðniaukningar í sjávarútvegnum heldur opnar dyr fyrir íslensk tæknifyrirtæki að kynna framúrskarandi nýjungar á erlendum vettvangi.

Ljóst er að rannsóknarsjóðir og rannsóknastofnanir hafa spilað stórt hlutverk við að efla tæknifyrirtækin. Sjóðir á borð við Rannís og AVS hafa komið mörgum verkefnum á koppinn og náin samvinna tæknifyrirtækja við Matís og háskóla hefur einnig skilað sér af krafti.

Sjá má greiningu Sjávarklasans í heild á slóðinni: http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2018/03/T%C3%A6knifyrirt%C3%A6kin-vaxa-hra%C3%B0ast-%C3%AD-sj%C3%A1varklasanum.pdf

 

Deila: