Kvótinn Noregsmegin í Barentshafi búinn

Deila:

Íslensku skipin, sem hafa veiðileyfi innan lögsögu Noregs í Barentshafi, hafa lokið veiðum þar. Aðeins standa 293 tonn eftir óveidd af þorskvóta skipanna upp á rétt tæp 6.000 tonn, en einhverjar tilfærslur gætu átt eftir að eiga sér stað.

Aðeins sjö skip stunduðu þessar veiðar í vetur, en 19 skip fengu einhverja úthlutun. Langaflahæsta skipið nú er sólberg ÓF með 1.954 tonn af þorski auk meðafla allt af 30% til viðbótar. Sólberg er stærsti og nýjasta frystitogari landsins og  með fiskimjölsverksmiðju um borð. Skipið nýtir allan afla sinn.

Næsta skip er Örfirisey RE með 1.161 tonn og þar á eftir kemur Kleifaberg RE með 963 tonn. Arnar HU er með 698 tonn, Gnúpur GK 343 tonn Kaldbakur EA 95 og Björgúlfur EA 270 tonn.

Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu hefur ekkert skip tilkynnt um afla úr rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Þar er kvóti okkar  3.538 tonn af þorski auk meðafla og hugsanlegra leiguheimilda til viðbótar. 15 skip hafa fengið úthlutuðum þorskaflaheimildum, mjög mismiklum og flest þeirra það litlum að ekki borgar sig fyrir þau að sækja þær. Í fyrra stunduðu aðeins fimm íslensk skip veiðar í lögsögu Rússlands í Barentshafi og var Kleifaberg RE með langmestan afla þeirra, ríflega 1.000 tonn.

Eftir tilfærslu nú eru nú 9 skip skráð með veiðiheimildir þarna uppfrá en ljóst er að enn er einhver tilfærsla aflaheimilda eftir. Nú er Kleifaberg með langmestar aflaheimildir í Rússasjónum, 1.600 tonn.

Á myndinni eru Kaldbakur og Sólberg inni á Eyjafirði. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

 

Deila: