Metfjárfesting í sjávarútvegi
„Fjárfesting í sjávarútvegi nam 36,9 ma.kr. í fyrra borið saman við 23,1 ma.kr. árið 2016 og nam aukningin því 13,9 ma.kr. eða 60%. Tölur Hagstofunnar um fjárfestingu ná allt aftur til ársins 1990 og hefur fjárfesting í sjávarútvegi ekki áður mælst svo mikil. Fyrra met var árið 1997 þegar fjárfesting nam 28,9 ma.kr.“ Þetta kemur fram í nýrri greiningu Landsbankans. Þar segir ennfremur:
Mikil fjárfesting síðustu 3 ár
Fjárfesting í sjávarútvegi skiptist í tölum Hagstofunnar í annars vegar fiskveiðar og hins vegar fiskvinnslu. Fjárfestingar í fiskveiðum voru töluvert meiri en fjárfestingar í fiskvinnslu í fyrra. Þannig nam fjárfesting í fiskveiðum 25,1 ma.kr. en fjárfesting í vinnslu nam 11,9 ma.kr. Fjárfesting í fiskveiðum hefur ekki áður mælst jafn mikil eins og á síðasta ári en fyrra metár var árið 2015 þegar fjárfestingin nam 16,5 ma.kr. Sögulega séð var einnig töluvert mikil fjárfesting árið 2016 þegar hún nam 12,7 ma.kr. Samanlögð fjárfesting í fiskveiðum nemur því 54,3 ma.kr. á síðustu þremur árum. Það er svipuð fjárfesting og samanlögð fjárfesting síðustu 13 ár þar á undan. Samanlögð fjárfesting í fiskvinnslu á síðustu þremur árum nemur 32,2 ma.kr.
Sögulega séð er hægt að tala um fjárfestingarkúf að þessu leyti en leita þarf aftur til áranna 1997-1998 til að finna meiri fjárfestingu á svo stuttum tíma.
Miklar fiskiskipafjárfestingar skýra fjárfestingar í fiskveiðum
Fjárfestinguna í fiskveiðum má rekja að miklu leyti til mikillar fjárfestinga í nýsmíði skipa. Á síðasta ári voru flutt inn til landsins 14 fiskiskip og var andvirði þeirra 22 ma.kr. eða um 1,6 ma.kr. á hvert skip að meðaltali. Sá innflutningur kemur í kjölfar 8 innfluttra skipa árið 2016 og 11 skipa árið 2015 en andvirði þessara 19 skipa nam 19,1 ma.kr. Samtals voru flutt inn 33 skip á árunum 2015-2017 fyrir andvirði 38,3 ma.kr. á föstu gengi ársins 2017. Leita þarf aftur til fyrstu áranna eftir aldamót til að finna sambærilega fjárfestingu í fiskiskipum en á árunum 2000-2002 voru flutt inn 48 fiskiskip. Á þeim tíma voru upphæðirnar nokkuð minni en nú eða um 21,6 ma.kr. á gengi síðasta árs.
Mörg af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hafa verið að fá ný skip eða koma til með að fá ný skip á næstu misserum. Dæmi um þetta eru t.d. HB Grandi, Samherji, ÚA, Hraðfrystihúsið Gunnvör svo einhver séu nefnd. HB Grandi hefur staðið í umfangsmestu fjárfestingunum en félagið hefur látið byggja fyrir sig 3 togara og 2 uppsjávarskip á síðustu árum og er verið að smíða einn frystitogara til viðbótar á Spáni fyrir fyrirtækið. Nú í janúar voru flutt inn tvö fiskiskip til landsins að andvirði 2,7 ma.kr. samtals.
Hár aldur flotans, sterkt gengi krónu og minni samkeppnishæfni kalla á fjárfestingu
Það sem ætla má að hafi fyrst og fremst rekið á eftir þessari miklu fjárfestingu í fiskiskipum er annars vegar sterkt gengi krónunnar og hins vegar hár aldur fiskiskipaflotans. Fjárfesting hér á landi hefur haft töluverða fylgni við gengi krónunnar á síðustu áraugum. Þannig hefur fjárfestingin jafnan vaxið verulega þegar krónan hefur styrkst en dregist saman þegar krónan hefur veikst. Þetta samband heldur bæði þegar breytingar á gengi og fjárfestingu koma til á sama árinu en einnig þegar breyting á fjárfestingu kemur í kjölfar breytingar á gengi krónu með eins árs töf. Styrking krónunnar á undanförnum árum hefur verið töluvert mikil og hefur raungengi krónunnar verið að styrkjast hratt. Nú er svo komið að raungengi krónunnar er litlu veikara en það hefur verið hvað sterkast á síðustu 40 árum. Þessi styrking raungengisins hefur dregið verulega úr samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja og er sjávarútvegur þar ekki undanskilinn.
Fjárfesting í nýjum skipum eykur samkeppnishæfnina í formi lægri rekstrarkostnaðar og betra hráefnis og gerir styrkur krónunnar það að verkum að kostnaði við fjárfestingu í slíkum skipum er jafnframt haldið í lágmarki mælt í krónum.
Meðalaldur flotans orðinn hár í sögulegu ljósi
Meðalaldur fiskiskipaflotans hefur leitað upp á við frá síðustu aldamótum og endurspeglar þróunin því tiltölulega litla fjárfestingu í nýjum togurum. Árin 2014-2016 mældist meðalaldur togara hér á landi 30 ár sem er það hæsta sem gögnin sýna en þau ná aftur til ársins 1999. Fjárfesting árin 2016 og 2017 skilaði sér í því að meðalaldurinn fór niður í 25 ár fyrir síðasta ár en fara þarf 10 ár aftur í tímann eða allt til ársins 2008 til að finna jafn lágan meðalaldur. Gera má ráð fyrir að fjárfesting á þessu og næstu árum muni halda áfram að lækka þennan meðalaldur.
Á myndinni eru HB Grandaskipin Akurey og Engey í heimahöfn. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.