Samheldinn dagur starfsmanna Marel

Deila:

Hinn árlegi Marel dagur var haldinn í síðustu viku. Þá koma saman þeir 650 starfsmenn, af 5,400 starfsmönnum á heimsvísu, sem staðsettir eru á Íslandi og eiga stefnumót við samstarfsfólk sitt.

Í ár var boðið upp á fjölda áhugaverða fyrirlestra á breiðum grunni, s.s. um starfsemi og stefnu Marel, áhugaverðar nýjungar í vöruþróun og hvernig rækta má sinni innri mann, t.d. með hláturjóga og breytingastjórnun.

Ákveðið var með stuttum fyrirvara að færa dagskrána yfir í Hörpu vegna stórbrunans í nágrenni höfuðstöðva Marel. Eldurinn kom upp í húsnæði sem hýsti Geymslur, Iceware og lítinn hluta af skrifstofustarfsemi Marel. Eldsupptök eru óljós en eldurinn breiddist út yfir í þann hluta hússins sem Marel hefur til leigu. Samkvæmt ráðleggingum frá lögreglu og slökkviliði voru starfsmenn beðnir um að halda sig innandyra og loka gluggum vegna reykmengunar. Um 50 starfsmenn Marel höfðu aðstöðu í þessu leiguhúsnæði og eru þeir allir óhultir þökk sé réttum viðbrögðum.

„Ef einhvern tíma var dagur til að sýna samheldni og samstarf í verki, þá var það í dag og eiga allir starfsmenn okkar mikið hrós skilið. Starfsmenn sem stóðu að skipulagningu, starfsfólk viðburðafyrirtækisins PROevents og starfsfólk Hörpu á einnig okkar bestu þakkir fyrir mikið hugvit og snarræði við að gera gott úr deginum. Óhætt er að segja að Marel dagurinn hafi heppnast sérlega vel í ár og sýnir hann vel þann kraft og samheldni sem ríkir í fyrirtækinu,“ segir í frétt frá Marel.

 

Deila: