Stjórn LS styður frumvarp um strandveiðar

Deila:

Stjórn Landssambands smábátaeigenda styður frumvarp atvinnuveganefndar um strandveiðar.  Ályktun þess efnis var samþykkt á fundi stjórnarinnar fyrir helgi. Fyrirferðamest á dagskrá fundarins voru veiðigjöld og strandveiðar.

„Í umræðu um strandveiðar lá fyrir frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis.  Segja má að afar skiptar skoðanir voru um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér að gerðar verða á stjórnun veiðanna.  Allir stjórnarmenn voru sammála um að 48 daga kerfi sem boðið væri upp á mundi bæta fyrirkomulag strandveiða að því tilskyldu að tryggt væri að dagarnir héldu.  Að ekki kæmi til stöðvunar veiða ef afli stefndi í að fara fram úr því sem ætlað væri,“ segir í frétt á heimasíðu landssambandsins.

Niðurstaða umræðunnar varð eftirfarandi ályktun:

„Stjórn LS styður frumvarp atvinnuveganefndar um strandveiðar.

Það er afar jákvætt fyrir framþróun strandveiða að hægt verði að velja daga.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðidagar til strandveiða árið 2018 verði 48, skipt jafnt á strandveiðimánuðina maí, júní, júlí, ágúst.

Stjórn LS mótmælir þó ákvæði frumvarpsins um heimild Fiskistofu til að stöðva veiðar stefni heildarafli í að fara umfram heildaraflaviðmiðun.  Aðstæður á hinum 4 veiðisvæðum strandveiða er mjög mismunandi hvað fiskgengd snertir.

Þannig að tilraunin verði marktæk er nauðsynlegt að tryggja 12 veiðidaga á bát í hverjum mánuði á öllum veiðisvæðum.

LS leggur áherslu á að ufsi við strandveiðar telji ekki til heildaraflaviðmiðunar og að ekki verði skylt að landa honum sem VS-afla.“

 

Deila: