Gullver landaði fullfermi

Deila:

Fullfermi var landað úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði í gær. Afli skipsins er 102 tonn og er hann blandaður; þorskur, ýsa, ufsi og karfi. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að vel hafi gengið að fiska í veiðiferðinni.

„Það aflaðist ágætlega en túrinn var fjórir dagar höfn í höfn. Við vorum mest í Berufjarðarál, Lónsdýpi og á Papagrunni en enduðum á Herðablaðinu í þorski. Þetta er annar túrinn eftir að skipið kom úr slipp og það hefur bara gengið vel í þeim. Við getum varla kvartað,“ segir Rúnar í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða í kvöld.

Frystihúsið á Seyðisfirði hefur verið lokað að undanförnu vegna sumarleyfa starfsfólks en vinnsla mun hefjast þar á ný eftir verslunarmannahelgi. Vinnsluhléið hefur verið notað til að setja upp tvo nýja frystiskápa þannig að frystigeta hússins mun aukast verulega.
Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

 

 

Deila: