Mikil aflaverðmæti á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti landaðs fiskafla í aprílmánuði síðastliðnum var mest á höfuðborgarsvæðinu, 3,2 milljarðar króna. Það er um 20% vöxtur frá sama mánuði í fyrra. Meðaltals hækkun á aflaverðmæti yfir landið er 16%.

Á Austurlandi var verðmætið  2,3 milljarðar, en þar var vöxturinn aðeins 3,5%. Suðurnesin koma næst á eftir einnig með verðmæti upp á 2,3 milljarða króna og er það vöxtur um 20%. Verðmæti landaðs afla á Norðurlandi eystra var 1,6 milljarðar og jókst það um 37%.

Aukning á aflaverðmæti varð mest á Norðurlandi vestra, 42,6% en aflaverðmætið um 966 milljónir króna. Á Suðurlandi var landað afla að verðmæti 848 milljónir króna, en þar dregst verðmætið saman um 24,2%. Verðmæti landaðs afla á Vesturlandi var 781 milljón króna, sem er vöxtur um 1,9%, Lægst er verðmæti landaðs afla á Vestfjörðum, tæplega 700 milljónir króna. Það er aukning um 17,9% frá sama mánuði í fyrra.

Sveiflur í aflaverðmæti milli landshluta má rekja til samdráttar í kolmunnaveiðum annars vegar og hins vægi þorsks í lönduðum afla, þar sem þorskverð hefur hækkað verulega frá því í apríl í fyrra.

Loks hefur verðmæti afla sem fluttur er óunninn úr landi aukist um 54,8% miðað við aprílmánuð í fyrra. Verðmætið nú er 830 milljónir á móti 527 milljónum í fyrra.

Deila: