Minni uppsjávarafli í ár en í fyrra

Deila:

Fiskistofa hefur tekið saman yfirlit yfir afla fyrstu ellefu mánuði ársins í norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna. Samkvæmt því hefur samanlagður afli þessara tegunda heldur dregist saman miðað við sama tíma í fyrra. Meira hefur veiðst af norsk-íslenskri síld, en minna af kolmunna og makríl.

Heildarafli íslenskra skipa í norsk-íslenskri síld er það sem af er ári 131 þúsund tonn en á síðasta ári var aflinn 119 þúsund tonn. Aflinn er að mestu fenginn í íslenskri lögsögu eða 103.166 tonn það er 78,5% af heildar norsk-íslensku síldarveiðinni.

Aflahæsta skipið í veiðum á norsk-íslenskri síld á þessari vertíð er Margrét EA-710 með 14.468 tonn. Næst er Venus NS-150 með 12.541 tonn.

Það sem af er ári hafa íslensk skip veitt rúm 238 þúsund tonn af kolmunna. Aflinn á sama tíma í fyrra var talsvert meiri, eða rúmlega 269 þúsund tonn. Kolmunnaafli á þessari vertíð er mestmegnis fenginn utan lögsögu eða 132 þúsund tonn í lögsögu Færeyja og 102 þúsund tonn í annarri lögsögu. Tæplega 4 þúsund tonn voru veidd í íslenskri lögsögu. Aflahæsta skipið í kolmunnaveiðum á þessari vertíð er Víkingur AK-100 með 25.366 tonn. Næst kemur Venus NS-150 með 23.346 tonn.

Makrílvertíð er lokið og er heildarafli íslenskra skipa á vertíðinni 128 þúsund tonn. Þetta er talsvert minni afli en á sama tíma í fyrra þegar hann var tæplega 136 þúsund tonn. Íslensk skip fengu tæplega 66 þúsund tonn eða 51,3% aflans í íslenskri lögsögu en 61,7 þúsund tonn á alþjóðlegu hafsvæði NEAFC og 609 tonn í lögsögu Færeyja.

Aflahæsta skipið á makrílveiðunum á vertíðinni er Víkingur AK-100 með 9.463 tonn. Næst kemur Huginn VE-55 með 9.311 tonn og Venus NS-150 með 9.127 tonn.

 

Deila: