Vilja opna á erlenda fjárfestingu í Brimi
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, leggur til við hluthafafund Brims þann 12. desember næstkomandi að skoðuð verði að möguleg skráning félagsins í norsku kauphöllina. Þá er einnig lagt til að skoðaðar verði aðrar leiðir til að opna á fjárfestingu erlendra aðila í félaginu samkvæmt frétt á kjarninn.is
Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallar, en Brim er eina skráða útgerðarfyrirtæki landsins. Eitt af því sem hefur verið sérstakt við veru þess á markaðnum, er að erlendir fjárfestar hafa ekki getað átt viðskipti með bréf félagsins vegna banns í lögum um slík viðskipti með félög sem eiga kvóta til veiða í íslenskri lögsögu.
Tillagan, sem birt hefur verið á vef kauphallarinnar, er í þremur liðum og felst í því að fela stjórn að skoða að leggja fram tillögu fyrir aðalfund félagsins á næsta ári, um hvernig best er að auka möguleika erlendra aðila til óbeinnar fjárfestingar í Brim.
Í tillögunum felst meðal annars að breyta tilgangi Brims úr sjávarútvegsfyrirtæki í eignarhaldsfélag sem eigi nýtt dótturfélag sem stofnað verði utan um sjávarútvegsreksturinn. Með þeim hætti geti erlendir aðilar átt aðkomum, óbeint, að félaginu.
Hins vegar að stofnað verði erlent félag sem eigi fjórðung hlutafjár í íslensku félagi sem eigi svo aftur Brim í heild, og erlenda félagið verði skráð í erlenda kauphöll, t.d. í kauphöll í Noregi.
Þriðja tillagan er að kanna og meta aðrar leiðir til að auka möguleika erlendra aðila á óbeinum fjárfestingum í Brim.
Markaðsvirði Brims er nú 75,9 milljarðar en það hefur hækkað um rúmlega 18 prósent það sem af er ári. Eigið fé fyrirtækisins nam tæplega 300 milljónum evra í lok þriðja ársfjórðungs á þessu ári, eða sem nemur um 40 milljörðum króna.