Kristján segir útséð með hvalveiðar í sumar

Kristján Loftsson, eigandi Hvals sf, segir útséð með að fyrirtækið haldi til hvalveiða í sumar. Þetta kemur fram í Morgunblaiðnu. Fyrirtækið bíður enn eftir svörum frá matvælaráðherra við umsókn um leyfi til veiða á langreyðum. Umsóknin var send ráðuneytinu 30. janúar.
„Það er augljóst í mínum huga að matvælaráðuneytið, undir forystu ráðherra Vinstri-grænna, skeytir engu um niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og heldur skipulega áfram í sinni vegferð að reyna að leggja atvinnustarfsemina af, þótt hún byggist á lögum. Þegar ekki er á vísan að róa með útgáfu starfsleyfis er ekki hægt að ganga í mannaráðningar og kaup á aðföngum sem eru nauðsynleg forsenda þess að veiðar geti orðið, það segir sig sjálft,“ er haft eftir Kristjáni.