Rífandi gangur í kolmunaveiðinni

Deila:

Kolmunnaveiðarnar í færeysku lögsögunni eru hafnar af fullum krafti og hver farmurinn á fætur öðrum berst nú til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Frá þessu segir á vef Síldarvinnslunnar.

Hákon EA kom að sögn til Seyðisfjarðar um hádegi í gær með fullfermi og Barði NK er væntanlegur þangað í kvöld einnig með fullfermi eða 2.100 tonn. Verksmiðjan á Seyðisfirði hóf vinnslu um klukkan hálf tvö í gær. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri segir að allt líti vel út. „Það gekk vel að starta enda allt klárt í verksmiðjunni. Hráefnið er afar gott því skipin eru fljót að fá í sig. Þetta lítur allt virkilega vel út”, segir Eggert Ólafur.

Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, segir að Vilhelm Þorsteinsson EA sé væntanlegur þangað með 3.100 tonn og verði verksmiðjan þá gangsett. „Það verður spennandi að gangsetja núna því verið er að taka í notkun nýjan búnað í verksmiðjunni. Það hefur verið fjöldi manna að vinna við að gera allt klárt að undanförnu og nú mun reyna á ný tæki. Það er alltaf spennandi þegar vinnsla hefst eftir viðamiklar breytingar og ég játa að það er smá hnútur í maganum. Annars líst mér vel á veiðarnar, þær fara vel af stað og hráefnið er örugglega gott,” segir Hafþór.

Börkur NK er á landleið með tæp 3.200 tonn en Beitir NK er enn á miðunum og kominn með góðan afla.

Deila: