Nýju Samherjaskipin í myndatöku

Deila:

Það var heldur en ekki sjón að sjá á Pollinum við Akureyri í dag þegar nýju ferskfisktogararnir þrír sem Samherji hf. hefur fengið í flota sinn á þessu ári sigldu þar saman fyrir ljósmyndara og nutu bæjarbúar þess að virða þessi glæsilegu skip fyrir sér. Fyrstur kom togarinn Kaldbakur EA 1 í mars, þá Björgúlfur EA 312 í lok maí og loks Björg EA 7 í gær. Þetta eru sannarlega skip sem setja nýjan svip á fiskiskipaflotann í orðsins fyllstu merkingu því því þau eru algjörlega ný hönnun en Skipatækni ehf. teiknaði skipin. Þau voru byggð í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi.

Kaldbakur EA kom til löndunar snemma í morgun og Björgúlfur EA hélt í sína þriðju veiðiferð strax að myndatökunni lokinni. Eftir er þó að setja nýjan vinnslubúnað í Kaldbak og verður það gert síðar í vetur. Í Björgúlf er kominn stór hluti endanlegrar vinnslulínu en síðari hluti hennar fer í skipið næsta vor. Á næstu dögum verður hins vegar byrjað að setja vinnslubúnað í Björgu EA en skipið verður fullbúið til veiða snemma á næsta ári. Slippurinn Akureyri annast uppsetningu vinnslubúnaðarins í skipin þrjú.

Ljósmynd og texti Jóhann Ólafur Halldórsson.

 

Deila: