Taka ný skref í karfavinnslunni
„Nú er loksins búið að klára að hanna og skipuleggja allt innvolsið í hina nýju verksmiðju okkar. Það er að segja vinnslubúnaðinn og skipulag hans. Þegar það var búið fórum við að hanna húsið og langt komnir með það. Húsið eru orðið alveg svakalega stórt, um 50×56 metrar, komið vel á þriðja þúsund fermetra, sem er þá viðbót við gamla húsið, sem við notum að hluta til áfram.“
Svo segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.RUN á Grundarfirði. „Þetta er því orðin geysimikil og flókin framkvæmd. Auk þess er komin svolítil tímapressa á verkefnið til við höfum verið að láta okkur dreyma um að nýtt hús gæti opnað eftir 12 til 13 mánuði héðan í frá. Það verður ansi mikil pressa.“
Einstaklega gott samstarf við Marel
Stjórnendur fyrirtækisins hafahannað uppsetninguna og hugmyndafræðina ásamt hönnuðum Marel, og átt við þá mjög gott samstarf við. Marel selur ekki bara selja stóran hluta af búnaðinum, heldur eru þeir með í því að tengja þetta allt saman við annan búnað sem er ekki frá þeim, eins og lausfrystinguna, sem er ekki frá þeim. „Samstarfið við Marel hefur verið einstaklega gott. Við höfum væntingar um það að þetta fiskvinnsluhús verði fullkomin og flott verksmiðja sem muni afkasta mjög miklu og skila góðum afurðum,“ segir Guðmundur Smári.
Breytingar í vinnslunni verða mjög miklar, sérstaklega í karfanum, þar sem farnar verða alveg nýjar leiðir. „Þar má segja að við höfum verið í nærri óbreyttri framleiðslu frá því við vorum að framleiða í gömlu sjö punda öskjurnar inn á Sovétríkin, sem sumir eldri menn muna eftir. Það kerfi hefur í gegnum tíðina verið nánast óbreytt og við höfum þar framleitt mikið í fimm punda öskjur fyrir Bandaríkin síðari ár, en sá markaður er að dragast mjög mikið saman.
Við erum að taka alveg ný skref í karfavinnslunni og færa okkur inn á nýja markaði, markaði fyrir ferskar unnar vörur inn á Bretland og meginland Evrópu. Við verðum þá í framtíðinni með megináherslu á unninn ferskan fisk og lausfrystan, en einnig mun falla eitthvað til í marningsblokk. Í þessum nýju tækjum sem að mestu leyti koma frá Marel eru vatnskurðarvélar og fleiri búnaður sem gerir það að verkum að það sem hefur verið að fara í eins og bita- og þunnildablokk hefur minnkað mjög mikið. Við bindum því miklar vonir við að hlutfall C- og D-vöru í vinnslunni minnki verulega og færist upp í A-vöru. Það er í raun og veru það sem á að borga þessa fjárfestingu.
Einn maður í móttökunni
Í þessari verksmiðju okkar erum við með mjög fullkominn búnað í móttökunni frá Skaganum 3X stál. Mikla sjálfvirkni þar sem við verðum með móttöku þar sem aðeins er þörf fyrir einn starfsmann. Við ætlum samt að taka um og yfir 40 tonn af fiski í gegnum hana á góðum degi. Síðan höfum við verið með tvær bolfiskflökunarvélar í þessu húsi, annars vegar fyrir smáfisk og hins vegar millifisk. Nú bætum við þriðju vélinni við svo við getum líka flakað stóra fiskinn. Við verðum því að flaka fisk frá 800 grömmum upp í 18 kíló.
Síðan erum við með nýja hönnun á hraðsnyrtilínu frá Marel og vatnsskurðarvél og flókna flokkun þar á eftir til þess að sundurgreina hnakkana og bitana sem fara inn á ferskfisklínuna og hitt sem fer í lausfrystingu eða marning og blokk, sem á að vera í lágmarki. Bitarnir sem fara í lausfrystingu fara inn á tvo risastóra lausfrysta, sem taka tvö tonn, sem á að duga fyrir verksmiðjuna.
Við erum einnig í þessari verksmiðju með sérlínu fyrir karfaflökun og vatnsskurðarvél og hraðsnyrtilínu í því skyni að auka möguleika okkar á framleiðslu og sölu á ferskum karfa inn á markaðinn í Evrópu, en karfann má lausfrysta líka. Í þessari verksmiðju eru því alveg tvær sjálfstæðar vinnslulínur, annars vegar fyrir þorsk, ýsu og ufsa og hins vegar fyrir karfa. Á góðum degi ætlum við að fara með um og yfir 40 tonn í gegn á dag í dagvinnu sem er í raun sjö og hálfur vinnutími. Verksmiðjan verður bara í gangi fimm daga vikunnar aðeins þriðjunginn af sólarhringnum. Því er alltaf sá möguleiki að bæta annarri vakt við og fjölga vinnsludögum.
Nú eigum við kvóta til að vinna um 80% af því magni sem við stefnum á að taka í gegn. Síðan er geysimikið af fiski að fara í gegnum fiskmarkaðina hér á Snæfellsnesi. Mjög mikill hluti af þeim fiski er fluttur óunninn í burtu. Við erum auðvitað með áform um að sækja fisk inn á þessa markaði og vinna hann hér heima. Þetta eru svona stóru áformin,“ segir Guðmundur Smári.
Fengu endurgreidda rangtekna vexti
Þetta er fjárfesting upp á rúman milljarð, en húsið hefur stækkað töluvert á hönnunarferlinu og því orðið heldur dýrara en upphaflega var stefnt að. „Ekki hefur verið vandamál að fjármagna þessar miklu framkvæmdir því við náðum að fá bankann til að endurgreiða rangtekna vexti frá hruni, sem voru verulegar upphæðir. Einnig hafa undanfarin ár verið mjög góð í rekstrinum og við getað byggt í haginn. Við erum því ágætlega í stakk búnir til að takast á við þessa áskorun þó svo þetta ár hafi verið mjög erfitt. Fyrst langt og mjög erfitt sjómannaverkfall, sem kostaði okkur og allt samfélagið verulega peninga og síðan hefur gengisþróun og markaðsaðstæður verið óhagstæð. Við slíkar aðstæður hefur íslenskur sjávarútvegur reyndar alltaf glímt. Erfiðleikarnir á þessu ári draga því ekkert úr áformum okkur um nýja húsið.
Við stóðum í raun frammi fyrir mjög einfaldri ákvörðun; annað hvort að hætta og selja kvótann og fyrirtækið eða fara út í þessa fjárfestingu til bæta stöðu okkar í framtíðinni, fá meira út úr því sem á land kemur. Við ákváðum seinni kostinn og sjáum ekkert eftir því.“
Þora ekki að hafa skoðun
Guðmundur Smári hefur greinilega ekki miklar áhyggjur af þeim sveiflum sem sjávarútvegurinn þarf að glíma við vegna gengis, markaða og náttúrunnar. En öðru máli gegnir um pólitíska umhverfið. „Maður hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem landsbyggðin og sjávarútvegur þar stendur frammi fyrir. Segja má að krafa allra stjórnmálamanna, nánast hvar í flokki sem þeir standa, sé að skattleggja sjávarútveginn í botn. Hagfræðiprófessorar hafa sýnt fram á að með því muni aðeins þeir hæfustu lifa af, hinir eigi að deyja. Það þýðir í raun að smæstu fyrirtækin víkja einfaldlega fyrir þeim stóru. Þetta er mjög sérkennileg stefna að fólk sem býr á landsbyggðinni og er í pólitík fyrir landsbyggðarfólkið þorir ekki að hafa skoðun á þessum málum og ætlar að horfa upp á það að við verðum með einsleitan sjávarútveg, sex til átta risastór fyrirtæki og búið. Þegar maður spyr pólitíkusana út þetta er enginn sammála því að þetta eigi að verða þróunin. Þeir segjast vilja halda þessu með svipuðum hætti og er í dag. En stefna þeirra og framganga gerir það að verkum að mörg smærri fyrirtæki munu víkja.
Verja greinina fyrir pólitískum áföllum
Við getum ekki litið framhjá því að við erum örþjóð, þó við höfum náð þessum árangri í fótboltanum, sem er algjörlega einstakt. Við náðum sambærilegum árangri að hluta til í því að selja fisk á árum áður. Þá vorum við að spila í deild þeirra allra bestu alveg eins og við gerum í knattspyrnunni í dag. En það fjaraði undan okkur og við erum ekki að standa okkur í markaðsmálum erlendis, við höfum dreift kröftum okkar um of úti á mörkuðunum, en ekki síður hér heimafyrir í slag við stjórnvöld. Öll orka sjávarútvegsins hefur farið í það að verja greinina fyrir pólitískum áföllum og það hefur kostað það að við höfum tapað okkar sérstöðu úti á mörkuðunum.
Ég var í síðustu viku úti í Frakklandi að hitta okkar helsta kaupanda af ferskum fiski. Hann opnaði nýja verksmiðju fyrir átta árum síðan. Fyrstu árin tóku þeir 13.000 tonn af fiski í gegnum þá verksmiðju. Í ár reikna þeir með að fara upp undir 26.000 tonn. Þeir eru búnir að ríflega tvöfalda verksmiðjuna og afköst hennar á átta árum. Að sex árum liðnum héðan í frá ætla þeir að vera komnir í 50.000 tonna vinnslu á ári. Af því verði 60% lax og 40% hvítfiskur eins og þeir kalla. Það eru þorskurinn, ýsan og ufsinn sem við erum að senda inn á þennan markað og erum smátt og smátt að koma karfanum líka þar fyrir.
Við þurfum að hafa frið til að sinna okkar vinnu. Markaðurinn í Evrópu er að breytast. Þar eru fyrirtækin að stækka og stækka. Verslunin í Evrópu er einhverra hluta vegna komin á hendur örfárra stórmarkaðskeðja. Þær stjórna allri smásöluverslun í Evrópu. Þeir sem þjónusta þessar keðjur þurfa að vera stórir og öflugir líka,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson.
Þetta viðtal birtist fyrst í Sóknarfæri, blaði Athygli hf, en því var dreift með Morgunblaðinu. Texti og myndir Hjörtur Gíslason.
Á efstu myndinni undirrita Guðlaugur Pálsson, framkvæmdastjóri Frostmarks og Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.RUN samning um kaup G.RUN á kælibúnaði fyrir nýju verksmiðjuna. Fyrirtækin tvö hafa átt áralangt og farsælt samstarf.