Sjávarútvegsskóli SÞ tekur þátt í FarFish

Deila:

Sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna er meðal þátttakenda í verkefninu FarFish, sem hlotið hefur 5 milljóna Evra styrk úr Horizon 2020 rannsóknaráætluninni. Verkefninu er ætlað er að stuðla að bættri umgengni evrópska fiskveiðiflotans um hafsvæði utan Evrópu, auka þekkingu á þeim fiskistofnum sem flotinn sækir í á þeim svæðum, greina þær virðiskeðjur sem snúa að afla þessara skipa, sem og að auka þekkingu á fiskveiðistjórnun meðal hagaðila sem að þessum veiðum koma; það er bæði meðal viðeigandi strandríkja og evrópskra hagaðila.

21 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar að úr Evrópu, Afríku og S-Ameríku taka þátt í FarFish. Að auki hefur fjöldi alþjóðlegra stofnanna og fulltrúar einstakra ríkja sem málið varðar skuldbundið sig til að koma að verkefninu eftir því sem þurfa þykir. Sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna leiðir vinnu er snýr að fagstyrkingu og útbreiðslu þekkingar en verkefninu er stýrt af Matís.

Í FarFish verkefninu verður athyglinni beint að sex hafsvæðum; innan lögsagna Grænhöfðaeyja, Máritaníu, Senegal og Seychelleseyja, sem og alþjóðlegra hafsvæða í suðaustur- og suðvestur-Atlantshafi. Safnað verður saman upplýsingum um líffræðilega, vistfræðilega, efnahagslega og félagslega mikilvæga þætti veiðanna og þær upplýsingar gerðar aðgengilegar. Fiskveiðistjórnun innan svæðanna verða greind í þaula og komið fram með tillögur að úrbótum. Leitast verður við að auka ábyrgð evrópska flotans þegar kemur að nýtingu og upplýsingagjöf og byggð verður upp þekking á grundvallaratriðum fiskveiðistjórnunar meðal hagaðila í strandríkjunum og innan evrópska fiskveiðiflotans.

 

Deila: