Beitir kominn með 9.300 tonn af kolmunna

Deila:

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 2.200 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Þar með er Beitir kominn með 9.300 tonn en hann hóf veiðarnar upp úr miðjum marsmánuði. Tómas Kárason skipstjóri segir í samtali á heimasíðu SVN, að hingað til hafi kolmunnaveiðarnar gengið vel en vissulega veiðist mismikið frá einum tíma til annars.

„Við vorum kallaðir inn með þessi 2.200 tonn því auðvitað þarf að hugsa um að verksmiðjurnar hafi hráefni til að vinna úr og einnig að of mikill afli berist ekki að landi á sama tíma. Þessi túr byrjaði afar vel. Við fengum 650 tonn í fyrsta holi, en síðan dofnaði verulega yfir veiðinni. Fiskurinn var dreifður og skipin þurftu að toga lengi. Við toguðum lengst í 18 tíma en sum skipin toguðu vel yfir 20 tíma. Þegar við fórum í land var treg veiði, en þetta á eftir að lagast. Kolmunnaveiðin er gjarnan svona; stundum gengur vel en svo koma tímabil þar sem lítið fiskast. Það var hins vegar kostur við þennan túr að veðrið var afar gott allan tímann sem við vorum á veiðum, en það var hins vegar haugabræla á leiðinni á miðin,“ sagði Tómas.

Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1.700 tonnum af kolmunna á Seyðisfirði í dag.

Á myndinni er Beitir NK að dæla kolmunna. Þetta var 650 tonna hol. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Deila: