Mér finnst matur góður!
Maður vikunnar að þessu sinni var um það bil 8 ára þegar afi hans og nafni gaf honum gellusting. Hann byrjaði í saltfiski og skreið 13 og fór á sjó 16 ára. Hann er Dalvíkingur og hefur mikinn áhuga á hestamennsku.
Nafn:
Sævaldur Jens Gunnarsson.
Hvaðan ertu?
Ég er Dalvíkingur þó ég hafi búið fyrstu 9 mánuði ævinnar í Hnífsdal!
Fjölskylduhagir?
Giftur Jóhönnu Hrefnu Gunnarsdóttur og við eigum 3 börn sem öll eru að flytja að heiman.
Hvar starfar þú núna?
Sölumaður hjá Sæplasti á Dalvík.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Afi minn og nafni varð mér úti um gellusting þegar ég var um það bil 8 ára. Það er mitt fyrsta skref í sjávarútvegi, annars byrjaði ég 13 ára að vinna við saltfisk og skreið og fór svo á sjó sumarið sem ég varð 16 ára.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Fjölbreytileiki greinarinnar og metnaður þeirra sem við hann starfa!
En það erfiðasta?
Duttlungar náttúrunnar eru oft erfiðir flest annað eru bara verkefni.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Ýmislegt skrítið hefur gerst hjá gömlum karli á starfsævinni! Sem betur fer meira skemmtileg en skrítið! Ég hef víða þvælst á söluferðum og sýningum og svo var margt skemmtilegt á sjónum. Margt af því er tæplega birtingarhæft! En ég gæti kannski sagt einhverjum sögur af því. 😊
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Ég hef kynnst alveg svakalega mörgum til sjós og lands. Margir þeirra eru mjög eftirminnilegir. Snorri heitinn Snorrason er með þeim eftirminnilegri til að nefna einhvern. Ég var hjá honum á Dalborginni 2 sumur.
Hver eru áhugamál þín?
Hestamennskan er númer 1,2 og 3 en annars hef ég mjög gaman af flestum íþróttum og allri útiveru. Svo finnst mér fólk oftast áhugavert.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Mér finnst flestur fiskur verulega góður (siginn, saltaður, steiktur, bakaður og soðinn) annars er lambið ofarlega álistanum. Það mætti stytta þetta í ; mér finnst matur góður!
Hvert færir þú í draumfríið?
Ég færi sennilega í hestaferð um Ísland með góðu fólki, en þá færi frúin ekki með svo ég þyrfti svipað marga daga í sól og hita með henni!