Sjávarútvegsráherra Færeyja flutti erindi á Global Fishery Forum

Deila:

Ráðstefnan Global Fishery Forum og sjávarútvegssýningin  Seafood Expo í Sankti Pétursborg var haldin í síðustu viku. Íslensk fyrirtæki tóku þar þátt og meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Högni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Rússar eru gestgjafar á bæði ráðstefnunni og sýningunni, og var það Ilya Shestakov, sjávarútvegráðherra Rússlands, sem bauð starfsbróður sínum frá Færeyjum að flytja erindi á ráðstefnunni. Viðfansgefni hennar var alþjóðlegur sjávarútvegur fram til 2050, auðlindir, markaðir og tækni með áherslu á tengsl framboðs á matvælum og fjölgunar mannskyns. .

Högni Hoydal, nefndi í ræðu sinni að hafið og auðlindir þess skiptu mestu máli í framleiðslu fæðu í framtíðinni og mikilvægt væri að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hann ræddi um nýja fiskveiðistefnu Færeyja og þá þýðingu sem aukið vinnsluvirði hefur til að tryggja viðvarandi sjálfbærar lausnir til framtíðar í framleiðslu matvæla.

Hann lagði einnig áherslu á mikilvægi fríverslunar með sjávarafurðir, til að tryggja að auðlindir hafsins skili sem mestu.

Meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni voru varaforsætisráðherra Rússa, Alexey Gordeyev, rússneski sjávarútvegsráðherrann Ilya Shestakov, aðalritari Alþjóða hafrannsóknaráðsins, Anne Christine Brusendorff, Aziz Akhannouch sjávarútvegsráðherra Marokkó og Audun Lem frá Landbúnaðar- og sjávarútvegsstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Á myndinni eru Högni Hoydal og Ilya Shestakov.

 

Deila: