Hval rak á land við Eystri-Fellsfjöru

Deila:

Hval rak á land í Eystri-Fellsfjöru neðan við Jökulsárlón í Vatnajökulsþjóðgarði. Steinunn Hödd Harðardóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á suðursvæði þjóðgarðsins, segir í samtali við ruv.is að grindhvalinn hafi líklega rekið á land fyrir einhverju síðan. Hann hafi svo skolast til og er kominn nær helsta ferðamannastaðnum á svæðinu.

Hún segir að hvalurinn verði að öllum líkindum fjarlægður við fyrsta tækifæri. Vanalega myndi náttúran sjá um að farga dýrinu en þar sem svo margir ferðamenn venji komur sínar á svæðið verði að fjarlægja hann. Þá verði líklegast fenginn kranabíll sem sjái um að hífa dýrið upp. Svo verði hann urðaður. Hún segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hval reki á land innan þjóðgarðsins að henni vitandi.

Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur á sviði græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, segir að hvalinn þurfi að fjarlægja áður en ólykt komi af honum. Hann eigi eftir að opnast og þetta verði ljótt. Erfitt sé að segja til um af hverju hvalir skolist á land, þetta sé stundum gangur náttúrunnar, segir hann.

Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur við hvalarannsóknir Hafrannsóknastofnunnar, segir að ýmsar hugmyndir séu uppi um hvers vegna hvali reki á land. Til að mynda geti verið að veik dýr kjósi heldur að deyja á landi en drukkna í sjó. Það sé þó ekkert sannað í þeim efnum.

Hann segir að hvalrekar séu sveiflukenndir. Fjöldi þeirra sé ekki óvanalegur í ár, enn sem komið er. Oft fjölgi tilkynningum um hvalreka á sumrin, en það gæti skýrst af því að fólk sé meira á ferðinni, úti um allar koppagrundir, segir hann.

 

Deila: