Sjóbjörgun helsta áhugasviðið

Deila:

Hann byrjaði fimm ára að þræða nálarnar fyrir pabba sinn, 10 til 11 ára var hann byrjaður að gella og 13 ára kominn í skelfiskvinnslu. Nú er hann yfirvélstjóri hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvör. Maður vikunnar á Kvótanum í dag er Jóhann Bæring Pálmason.

Nafn?

Jóhann Bæring Pálmason.

Hvaðan ertu?

Uppalinn á Ísafirði af Skagfirðingi og Patreksfirðingi.

Fjölskylduhagir?

Giftur Örnu Ýr Kristinsdóttur leikskólakennara og saman eigum við börnin Bergdísi Lilju 11 ára, Kristinn Þóri 8 ára, Hauk Erni 4 ára og Berglindi Ýr 3 ára.

Hvar starfar þú núna?

Yfirvélstjóri landvinnslu hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvör með starfstöðvar í Hnífsdal, Ísafirði og Súðavík.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Um 5 ára var ég farinn að þræða nálarnar þegar pabbi kom með rifið í land og fór fljótlega að fá að fara með túr og túr. Ætli við Hinrik frændi höfum ekki verið 10 til 11 ára þegar við vorum að gella í vinnslu móðurbræðra minna á Patró en fór 13 ára að vinna með skóla í skelfiskvinnslu Básafells á Ísafirði.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn, einn daginn er maður olíublautur upp fyrir haus undir lyftara en þann næsta er maður uppstrílaður í kjól og hvítt inni í miðri vinnslu með tölvu í fanginu og hágæða matvöru á borðinu.

En það erfiðasta?

Óstöðugleikinn er klárlega það erfiðasta sem við er að eiga. Nóg er að nokkrir pólitíkusar eða embættismenn fari öfugu megin framúr að morgni og þá er öll greinin komin í baklás um morgunkaffi.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ég hef í gegnum tíðina starfað sem verkamaður, stálsmiður við smíðar, breytingar og lagfæringar á búnaði, hönnuður búnaðar og vélstjóri í vinnslum og því orðið vitni af ýmsum skrautlegum atburðum. En hvernig lyftaramanninum sem var að koma út úr frystiklefanum, tókst að reka gaflana í hurðabrautina sem var 10 cm fyrir ofan hurðakarminn og öryggislána utan við klefann. Það er mér enn hulin ráðgáta.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru nokkrir skemmtilegir sem koma upp í hugann. Bubbur heitinn sem var reddari hjá útgerð Básafells á sínum tíma var einstaklega skemmtilegur karakter. Jói Jónasar fyrrum framkvæmdastjóri 3X og Palli Harðar verkstjóri reyndust mér afskaplega vel á erfiðum tímum. Svo hefur maður fengið að vinna með öðlingum eins og t.d. Svenna Bjartar sem var úti verkstjóri hjá HG, Jóa Húna, Kitta Óla Villa og fleiri góðum mönnum. En það má ekki sleppa Hemma Dodda, rafvirkja greyinu sem oft þarf að redda mér. Það er fátt skemmtilegra en að stríða honum og finna með honum einhverja skemmtilega hrekki á vini okkar og vinnufélaga.
Hver eru áhugamál þín?

Ég er voðalegur dellu kall í mér og tek miklu ástfóstri við áhugamál mín. Síðastliðin rúm 20 ár hef ég varið miklu af mínum frítíma í starfsemi björgunarsveita þar sem sjóbjörgun hefur verið mitt helsta áhugasvið. En skíðamennska, golf og ýmiskonar útivist eru ofarlega á listanum.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Góðir fiskréttir eru alltaf vinsælir en ná þó ekki að slá út vel eldaðri nautasteik.

Hvert færir þú í draumfríið?

Góð spurning. Ef ég gæti rennt mér á skíðum til hádegis í góðu færi og skellt mér svo gólfhring eftir hádegið með fjölskyldunni þá væri sennilega fátt sem myndi toppa það.

 

 

Deila: