Gullkarfi í kókosraspi
Þá er komið að karfanum. Fiski sem Íslendingar litu ekki við sem mat langt fram á síðustu öld, en Þjóðverjar mokuðu hér upp og fóru með heim í matinn. Þegar Íslendingar veiddu karfa á ofanverðri síðustu öld, var hann settur í bræðslu, fluttur ferskur utan til Þýskalands eða frystur og seldur til Rússlands. Hann var ekki í matinn hér. En á síðustu áratugum hefur orðið bylting í neyslu fisktegunda á Íslandi og nú gerum við okkur grein fyrir því að nánast allt sem úr hafinu kemur er matur og það góður.
Þessa uppskrift sóttum við á uppskriftasíðuna fiskurimatinn.is, en þar er að finna fjölmargar uppskriftir að gómsætum fiskréttum.
Innihald:
- 800 g gullkarfi
- 2 egg
- 200 ml mjólk
- 2 msk hveiti
- 2 bollar brauðraspur
- 1 bolli haframjöl
- 1 tsk salt
- 2 tsk sítrónupipar
- 2 tsk karrí
- 4 msk gróft kókosmjöl
Aðferð:
Pískið saman eggin, mjólkina og hveitið. Leggið fiskinn í eggjablönduna á meðan raspurinn er blandaður. Blandið saman brauðraspi, haframjöli, salti, sítrónupipar, karrí og kókosmjöli. Veltið fisknum upp úr raspinum og steikið á báðum hliðum á meðalheitri pönnu. Berið fram með kartöflum og fersku grænmeti.