Kröftugur innri vöxtur og góð rekstrarafkoma
Rekstur Marel hefur gengið vel á fyrsta fjórðungi þessa árs. Tekjur hafa aukist. Meira hefur verið pantað og hagnaður hefur aukist. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel er sáttur við gang mála,, enda eru horfur taldar góðar:
„Árið byrjar vel. Tekjuvöxtur var 14% milli ára með traustum rekstri þar sem EBIT* var 15% af tekjum.
Matvælaiðnaður er að breytast hratt. Neytendur gera sífellt meiri kröfur um holl matvæli á hagstæðu verði sem framleidd eru á sjálfbæran hátt. Að auki eru matvælaöryggi og rekjanleiki lykilatriði fyrir alla aðila virðiskeðjunnar.
Sjóðsstreymi er sterkt og við höldum áfram að fjárfesta kröftuglega í nýsköpun sem og innviðum félagsins. Markmið þessara fjárfestinga er að þjóna þörfum viðskiptavina okkar enn betur og styrkja stöðu okkar sem leiðandi framleiðanda hátækni lausna fyrir kjúklinga-, kjöt- og fiskvinnslur á heimsvísu. Hugbúnaður og samtenging tækja er sífellt vaxandi þáttur í heildarlausnum Marel.
Pantanir dreifðust vel á milli heimssvæða og voru sterkar í öllum iðngreinum. Pantanir námu samtals 329 milljónum evra og hafa aldrei verið hærri. Samheldið teymi 5,500 starfsmanna vinnur af hollustu og eldmóði að því að umbylta matvælaframleiðslu í nánu samstarfi við viðskiptavini og tryggja áframhaldandi verðmætasköpun fyrir hluthafa,“ segir Árni Oddur Þórðarson.
- Pantanir á fyrsta ársfjórðungi námu 329 milljónum evra (1F17: 293m).
- Tekjur námu 288 milljónum evra (1F17: 253m).
- EBIT* nam 44 milljónum evra (1F17: 38m), sem var 15,2% af tekjum (1F17: 14,9%).
- Hagnaður nam 28 milljónum evra (1F17: 21m) og hagnaður á hlut (EPS) var 4,11 evru sent (1F17: 2,99 evru sent).
- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 56 milljónum evra (1F17: 38m).
- Í mars var greiddur út arður til hluthafa; 4,19 evru sent á hlut, sem jafngildir um 29 milljónum evra eða 30% af hagnaði rekstrarársins 2017. Marel keypti einnig eigin bréf á fjórðungnum að andvirði 30,3 milljónir evra.
- Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x2,0 í lok mars (1F17: x2,0), markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3.
- Pantanabókin stóð í 529 milljónum evra við lok fjórðungsins (árslok 2017: 472m).
Horfur
Í ljósi góðrar rekstrarniðurstöðu og sterkrar pantanabókar, gerir félagið ráð fyrir góðum innri vexti árið 2018.
Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.
- Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
- Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
- Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.
Áætlaður vöxtur veltur á hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og verður því ekki línulegur. Gera má ráð fyrir breytilegri afkomu milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.