Blængur í Barentshafið

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í Neskaupstað sl. laugardag. Afli skipsins var 365 tonn upp úr sjó eða 15.000 kassar. Verðmæti aflans er um 70 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson var skipstjóri í veiðiferðinni og segir hann í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að hún hafi gengið mjög vel.

„Við vorum að veiðum á Reykjaneshrygg og aflinn var gullkarfi og djúpkarfi. Það fiskaðist afar vel allan túrinn en hann tók 14 daga höfn í höfn þannig að við vorum einungis 10-11 daga að veiðum,“ segir Bjarni Ólafur.

Í gærkvöldi var ráðgert að Blængur héldi til veiða í Barentshafið. Skipstjóri í þeirri veiðiferð verður Theodór Haraldsson. Theodór segir að mönnum lítist vel á Barentshafsveiðarnar. „Þetta verður spennandi enda hefur yfirleitt verið mjög góð þorskveiði á þessum slóðum um þetta leyti árs. Við ættum að vera komnir á miðin á laugardag og það er áætlað að vera þarna að veiðum fram undir sjómannadag. Um borð verður 26 manna áhöfn auk rússnesks eftirlitsmanns, segir Theodór.

 

Deila: