Kæru náttúruverndarsamtaka gegn eldi á laxaseiðum í Þorlákshöfn hafnað

Deila:

Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hefur hafnað kröfu um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf í Þorlákshöfn.

Kærendur höfðu gert þá kröfu að ákvörðunin yrði ógilt og réttaráhrifum hennar frestað.  Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarfélagið laxinn lifi, kærðu ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. nóvember 2017 sem hefur veitt starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. að Laxabraut 9, Þorlákshöfn. Í kærunni var þess krafist að ákvörðun um rekstrarleyfi til fiskeldis yrði felld úr gildi.

Málsatvik eru þau að Matvælastofnun hafði gefið út rekstrarleyfi 13. nóvember sl. en Umhverfisstofnun hafði gefið út starfsleyfi til handa sama aðila Laxa fiskeldis ehf, 8. nóvember 2017.

Í niðurstöðu Úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærendur telji hættu á lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun  sleppi eldisfiskur úr stöðinni. Í niðurstöðu Úrskurðarnefndarinnar segir ennfremur:

„Fyrir liggur matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. ágúst 2016 og hefur hún ekki verið kærð. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif eldisins yrði losun næringarefna út í sjó, en að ekki væru líkur á að næringarefni söfnuðust upp að neinu ráði vegna staðhátta. Væri eldið ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja litlar líkur á að þau áhrif komi fram á umhverfið á meðan á meðferð málsins stendur að kæruheimild verði þýðingarlaus, en að sama skapi er ljóst að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa.”

Í niðurlagi úrskurðar segir:

„Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Matvælastofnunnar frá 13. nóvember 2017 um útgáfu rekstrarleyfis fyrir allt að 500 tonna seiðaeldi Laxa fiskeldis ehf. í Þorlákshöfn með kynbættum norskum laxi.“

 

Deila: