Arctic Fish kynnir starfsemina
Arctic Fish boðar til íbúafundar í seiðaeldissstöð félagsins í botni Tálknafjarðar, fimmtudaginn 3. maí kl. 16:00.
Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að á fundinum verði kynning á starfsemi Arctic Fish og frummatsskýrslum fyrir Arnarfjörð og stækkun eldis í Dýrafirði. Auk þessa verður almenn kynning og umræður um núverandi starfsemi og áform félagsins í fiskeldi á Vestfjörðum.
Sjókvíaeldi Arctic Sea Farm (fyrrum Dýrfisks) byrjaði árið 2009, þegar fyrirtækið hóf að ala regnbogasilung í sjókvíum í Dýrafirði og á síðasta ári voru sett út laxaseiði sem byrjað verður að slátra síðar á þessu ári. Arctic Sea Farm hefur starfs- og rekstrarleyfi til framleiðslu á 4.200 tonnum af laxi eða regnbogasilungi í Dýrafirði og er að sækja um stækkun í 10.000 tonn. Þá er fyrirtækið með leyfi til framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi í Patreks- og Tálknafirði og 400 tonna leyfi í Önundarfirði. Auk þess hefur fyrirtækið sótt um leyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi og á fundinum verður frummatsskýrsla um 4.000 tonna laxeldi í Arnarfirði kynnt, en hana er að finna á vef Skipulagsstofnunar.
Skrifstofa Arctic Fish er í Ísafjarðarbæ og hjá félaginu starfa nú þegar yfir 40 starfsmenn, flestir í sjóeldisstarfseminni (Arctic Sea Farm) en þar líkt og í seiðaeldisframleiðslunni (Arctic Smolt) hefur verið auglýst eftir fleiri starfsmönnum til þess að fylgja eftir uppbyggingu félagsins.
Þátttakendum gefst færi á að sjá nýja seiðeldisstöð félagsins þar sem fundurinn verður haldinn í Norður Botni í Tálknafirði. Þar hefur Arctic Smolt staðið að uppbyggingu seiðaeldisstöðvar frá árinu 2011 sem er grunnurinn að uppbyggingu sjóeldis félagsins á Vestfjörðum.