Á músaveiðum með símaskrá að vopni

Deila:

Maður vikunnar á Kvótanum í dag er Sigurður Jónsson, verkstjóri í saltfiskvinnslu Vísis hf. í Grindavík. Hann fór 15 ára í starfskynningu með netabátnum Pétri Jónssyni, tíu daga túr. Síðan hefur hann verið viðloðandi sjávarútveginn fyrir vestan, austan og á Reykjanesi. Hann hefur áhuga á golfi.

Nafn?

Sigurður Jónsson.

Hvaðan ertu?

Uppalinn á Seltjarnarnesi .  Bjó rétt fyrir ofan gamla Ísbjörninn, þar sem maður lék sér oft á vinnusvæðinu.  Einnig var ég með annan fótinn í Kjósinni, þar sem góða veðrið á heima.

Fjölskylduhagir?

Giftur Þorgerði  Guðný Guðmundsdóttir og eigum við eina dóttir  sem er 22 ára og einn son sem er 19 ára.

Hvar starfar þú núna?

Verkstjóri í saltfiskvinnslu Vísis hf. Í Grindavík.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Vorið 1978 fór ég í starfskynningu , Þá 15 ára í  tíu daga túr með netabátnum Pétri Jónsyni  sem gerði út frá Reykjavík.  Ári seinna fór ég einn túr á togarann Hólmatind SU. 

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn, sérstaklega þegar maður vinnur í fyrirtæki sem er í stöðugri  tækniþróun.  Einnig að kynnast öllum þeim sem vinna við greinina.

En það erfiðasta?

Þegar það fiskast lítið.  Lítið að gera. Einnig þegar maður var látinn seyla misgamla hausa á laugardagsmorgnum eftir djamm næturinnar í gamla daga.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Vera á músaveiðum inni í verkstjórakompunni á Flateyri með símaskrá sem vopn talandi við Kaupfélagsstjórann í símann. 

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Steini Matt á Hornafirði, frábær verkstjóri og góður vinnuveitandi.  Frelsaðist eftir að ég fór frá Höfn og hefur, held ég gengið á Guðs vegum eftir það.

Hver eru áhugamál þín?

No 1 Golf No 2 Golf og No 3 Golf.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Kótilettur í raspi a la mamma Jóns Steinars.

Hvert færir þú í draumfríið?

Golfferð með frúnni til Tælands.

Deila: