Breka VE formlega gefið nafn
Breka VE-61 var formlega gefið nafn við hátíðlega athöfn við Vestmannaeyjahöfn við upphaf sjómannadagshelgarinnar. Kristín Gísladóttir, einn eigenda Vinnslustöðvarinnar og fyrrverandi stjórnarmaður félagsins, gaf skipinu nafn og Eyjaprestarnir Guðmundur Örn Jónsson og Viðar Stefánsson blessuðu skipið. Þeir skoðuðu síðan skipið í fylgd Magnúsar Ríkarðssonar skipstjóra.
Einar Þór Sverrisson, varaformaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar, ávarpaði gesti og Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fráfarandi forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, flutti ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra. Ráðherrann afboðaði sig um hádegisbil. Þingflokkur Sjálfstæðismanna hafði þá boðið síðdegis til að ræða pólitískt ástand á löggjafarsamkomunni. Stjórnarandstaðan hélt uppi málþófi vegna frumvarps um veiðigjöld.
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, stjórnaði samkomunni. Fjöldi fólks mætti á vettvang og hlýddi á Gildruna spila og syngja á palli fyrir utan frystigeymsluna stóru og glæsilegu sem Eyjamenn fengu að kynnast í fyrsta sinn innan dyra – í 28 stiga frosti ef menn fóru inn í sjálfa frystiklefana!
Frystigeymslan fékk heitið Kleifarfrost við þetta tilefni og Addi í London var leystur út með gjöfum og heiðraður fyrir að eiga höfundarrétt að nafninu. Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi verkstjóri, starfsmannastjóri og altmuligmand Vinnslustöðvarinnar, greindi frá niðurstöðu nafnasamkeppninnar sem formaður sérstakrar nefndar þar að lútandi.
Samkoman öll tókst sérlega vel og mikil gleði og ánægja ríkti meðal gesta. Þetta var sérlega velheppnað upphaf helgarinnar sem tileinkuð er sjómönnum lýðveldisins.