17,5 milljarðar máltíða árlega úr laxeldi í heiminum

Deila:

Laxeldisframleiðslan í heiminum er nú um 2,5 milljónir tonna sem svarar til 17,5 milljarða máltíða. Laxeldið skapar um 132 til 133 þúsund bein störf í sjávarbyggðum. Er þetta aukning um 3 milljarða máltíða og 12 þúsund starfa á þremur árum. Velta laxeldisfyrirtækja i heiminum er um 15,4 milljarðar bandaríkjadala, eða um 1.600 milljarðar króna og hefur aukist um 500 milljarða króna á þremur árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðasamtaka fiskeldisstöðva, ISFA en sagt er frá þessu á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
Skilur eftir sig lágmarks kolefnisfótspor
„Það er hafið yfir allan vafa að laxeldisframleiðslan verður æ mikilvægari“, segir Trond Davidsen frá Noregi, sem er formaður samtakanna. Vekur hann athygli á að þessi aukning eigi sér stað á sama tíma og bent er á að úr sjónum verðum við að sækja mikilvægan hlut fæðuframleiðslunnar í heiminum. „Framleiðsla á laxi skilur eftir sig lágmarks kolefnisfótspor“, segir hann enn fremur.
„Hvort sem þú borðar sushi, grillaðan lax eða reyktan…“

Í skýrslunni kemur fram að við nýtum lítinn hluta hafsins ( 0.00008%) hafsins til þess að framleiða þessar 17,5 milljarða máltíðir. Auk þeirra 132 þúsund beinu starfa hafi orðið til mikill fjöldi óbeinna atvinnutækifæra.
„Hvort sem þú borðar sushi, grillaðan lax eða reyktan, þá er líklegt að hann hafi verið alinn á vegum aðildarfyrirtækja ISFA, segir Trond Davidsen.
500 milljarða verðmætisaukning á þremur árum
Skýrsla ISFA er sú þriðja í röðinni á jafn mörgum árum. Í fyrstu skýrslunni sem út kom árið 2015 kom fram að heimsframleiðslan á laxi svaraði til 14,8 milljarða máltíða að verðmæti 10 milljarða bandaríkjadala, sem eru rúmlega eitt þúsund milljarðar króna. Aukningin á þessum þremur árum er því nálægt 50 prósentum, eða um 500 milljarðar króna.

Deila: