Sigmenn Gæslunnar héldu vel heppnaða ráðstefnu
Sigmenn Landhelgisgæslunnar höfðu veg og vanda af skipulagningu ráðstefnu EURORSA, Evrópusamtaka sig- og þyrlubjörgunarmanna, sem fram fór í Reykjavík um helgina. Æfing í ytri höfn Reykjavíkur á laugardag var lokahnykkurinn á vel heppnaðri helgi. Frá þessu er sagt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.
Ráðstefnugestir horfðu á æfinguna frá varðskipinu Tý sem sigldi út á sundin. Björgunarbáturinn Stefnir úr Kópavogi tók þátt í æfingunni auk þess sem Óðinn var öryggisbátur við æfinguna og hafði kafara um borð. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ og TF-SYN, tóku þátt í æfingunni. Að auki var færeysk björgunarþyrla hér á landi vegna ráðstefnunnar en hún sýndi hífingar frá björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni.
TF-GNÁ flaug yfir björgunarskipið og frá þyrlunni var tengilínu slakað niður. Sigmaðurinn um borð í TF-GNÁ fór niður með björgunarlykkju og sendi tvo menn upp og fór að því búnu sjálfur um borð í þyrluna. Því næst voru tveir menn settir út frá Stefni í björgunarbát og hífðir þaðan fljótlega en að auki voru tveir menn hífður úr sjó í beinu framhaldi.
Ráðstefnugestir sem fylgdust með æfingunni um borð í varðskipinu Tý gátu hlustað á samskipi áhafnarinnar á TF-GNÁ meðan á æfingunni stóð.
Ráðstefnan heppnaðist eins og best verður á kosið og eiga sigmenn Landhelgisgæslunnar mikið hrós skilið fyrir vasklega framgöngu við skipulagningu hennar.