Góð stað helstu fiskistofna
Staða helstu bolfiskstofna við Ísland er nú nokkuð góð að mati Hafrannsóknastofnunar. Hún leggur til að þorskafli verði aukinn m 3%, afli af ýsu um 40% og að auka megi veiðar á ufsa um 30%. Hér fer á eftir ráðgjöf og mat Hafró á helstu fjórum stofnunum, þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa.
Þorskur
Lagt er til að afli fiskveiðiárið 2018/2019 verði ekki meiri en 264 437 tonn. Það er aukning um 3% frá þessu fiskveiðiári. Þetta er mesti þorskkvóti allt frá árinu 1993.
Hrygningarstofn hefur stækkað á undanförnum árum og hefur ekki verið stærri í fimmtíu ár. Veiðihlutfall hefur lækkað og er það lægsta á stofnmatstímabilinu. Nýliðun síðan 1988 er að meðaltali um 140 milljónir 3 ára nýliða, mun minni en hún var árin 1955–1987 (meðaltal um 205 milljónir). Stækkun stofnsins er því fyrst og fremst afleiðing minnkandi sóknar. Árgangurinn frá 2013 er metinn slakur en árgangar 2014 og 2015 eru nálægt langtímameðaltali.
Árgangur 2015, sem kemur í viðmiðunarstofninn árið 2019, er metinn nokkuð yfir meðaltali áranna 1955–2017 (175 milljónir við þriggja ára aldur). Árgangur 2016 er metinn nokkuð undir meðaltali en árgangur 2017 nálægt meðaltali. Því er líklegt að stærð viðmiðunarstofns næstu þrjú ár muni haldast nokkuð svipuð því sem nú er.
Meðalþyngd eftir aldri í afla hefur aukist undanfarin ár og var árið 2017 nálægt langtímameðaltali (1955–2017). Þyngdir 3–9 ára í stofnmælingum árið 2018, sem eru notaðar til að spá um þyngdir í viðmiðunarstofni árið 2018, eru undir meðaltali í 4 ára fiski en um eða yfir meðaltali í öðrum aldurshópum.
Þorskafli hefur farið vaxandi undanfarin ár. Hlutdeild línu í aflanum hefur vaxið frá aldamótum en hlutdeild neta minnkað. Undanfarinn áratug hefur hlutfallslega mikið verið af 8 ára og eldri fiski í afla, samanborðið við árin 1973–2006. Afli á sóknareiningu hefur verið hár á undanförnum árum í helstu veiðarfæri.
Ýsa
Lagt er til að afli fiskveiðiárið 2018/2019 verði ekki meiri en 57.982 tonn. Þetta er mesti ýsukvóti frá fiskveiðiárinu 2010/2011 og er hann 40% hærri en á þessu ári.
Hrygningarstofn stækkaði á árunum 2001–2004 vegna nokkurra sterkra árganga og var stór fram til ársins 2008. Eftir 2008 fór hrygningarstofninn minnkandi, en hefur á síðustu fimm árum verið stöðugur og yfir aðgerðarmörkum aflareglu (MGT Btrigger). Veiðihlutfall árin 2015–2017 er metið með því lægsta á stofnmatstímabilinu og nálægt því sem stefnt er að með aflareglu (HRMGT). Nýliðun 2 ára ýsu árin 2010–2015 var mjög léleg, en nýliðun 2016 er góð og nýliðun áranna 2017 og 2018 nálægt meðaltali.
Áætlað er að viðmiðunarstofninn fari vaxandi eftir að 2014 árgangurinn bætist við hann. Árgangar frá 2015–2017 eru metnir nálægt meðaltali. Meðalþyngd árganga frá 2014–2017 er spáð yfir meðallagi árið 2019.
Fram til 1996 voru 65–70% ýsuafla tekin í botnvörpu en hlutdeild línu jókst jafnt og þétt árin 1996–2011. Frá 2011 hafa tæplega 90% ýsuaflans fengist á línu og í botnvörpu.
Stofnmælingar benda til að hlutfall veiðistofns ýsu á norður og austur miðum hafi aukist úr 10–15% í tæp 50% frá 2000–2008. Á sama tíma hefur einungis fimmtungur aflans verið veiddur þar. Veiðiálag á ýsu á norðurmiðum er þar af leiðandi töluvert lægra en utan þeirra. Norðurmið hafa hins vegar lengi verið mikilvæg uppeldissvæði ýsu, en fyrir 2000 gekk hún þaðan við kynþroska.
Ufsi
Lagt er til að afli fiskveiðiárið 2018/2019 verði ekki meiri en 79.092 tonn. Það verður mesti kvóti á þessum áratug. Hrygningarstofn ufsa er nú metinn í sögulegu hámarki. Veiðihlutfall hefur lækkað frá 2009 og er nú metið undir markmiði aflareglu. Nýliðun síðasta áratugar hefur verið góð. Viðmiðunarstofn hefur stækkað síðan 2015 vegna stórs árgangs frá 2012 og árgangar 2013 og 2014 eru metnir yfir meðallagi.
Stofnstærð mun lítið breytast á næstu árum miðað við fyrirliggjandi gögn. Í framreikningum er gert ráð fyrir 70 þús. tonna afla á árinu 2018, en horft er til þess hve mikið af aflamarkinu fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 á eftir að veiða.
Stofnmatið í ár bendir til stærri stofns en stofnmatið í fyrra. Mesta breytingin frá fyrra ári er að árgangar 2012– 2014 eru nú metnir mun stærri. Stofnmat ufsa er fremur ónákvæmt og er helsta orsökin mikill breytileiki vísitalna úr SMB. Gildandi aflaregla tekur mið af því.
Síðustu 20 ár hafa yfir 80% ufsaaflans verið veidd í botnvörpu og annar afli að mestu í net og á handfæri. Fyrir 1990 voru allt að 30% aflans veidd í net. Undanfarin ár hefur orðið töluverð tilfærsla á ufsaveiðum frá suðurmiðum yfir á norðvesturmið. Halamið hafa verið helsta veiðisvæðið undanfarin ár.
Meðalþyngdir 4–6 ára ufsa í afla og stofnmælingu hafa verið lágar síðan 2004. Sandsíli og ljósáta eru mikilvægasta bráð smáufsa og lágar meðalþyngdir gætu því verið tengdar skorti á sandsíli við Suður- og Vesturland. Meðalþyngd annarra aldursflokka var lág frá 2005–2011 en hefur síðan þá verið nálægt meðaltali.
Á síðustu tveimur fiskveiðiárum náðist ekki að veiða upp í úthlutaðar aflaheimildir í ufsa og stefnir í að það náist heldur ekki á yfirstandandi fiskveiðiári. Breytingar á flotasamsetningu síðustu ár gætu hafa leitt til þess að ufsi veiðist ekki í sama mæli og áður. Sókn með línu hefur aukist en hlutdeild tog- og netaveiði minnkað, en ufsi veiðist mest í tog- og netaveiðum. Undanfarin ár hefur sókn í smáufsa verið mikil og talsvert af aflamarki fært yfir í aðrar tegundir. Þrátt fyrir að núverandi aflaregla fyrir ufsa uppfylli kröfur um varúðarnálgun og hámarksafrakstur þarf að taka tillit til ofangreindra þátta við stjórnun veiðanna, hugsanlega með breytingu á aflareglu.
Gullkarfi
Lagt er til að afli fiskveiðiárið 2018/2019 verði ekki meiri en 43.600 tonn á svæðinu Austur-Grænland/Ísland/Færeyjar. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands mun 90% af ráðlögðu aflamarki koma í hlut Íslendinga. Þetta er lækkun um 14%.
Árgangarnir frá 2000–2005 voru uppistaða aflans árið 2017. Árgangarnir frá 2008–2014 eru metnir litlir. Veiðidánartala hefur lækkað síðustu tvo áratugina en er hærri en stefnt er að samkvæmt aflareglu. Hrygningarstofn hefur vaxið ört síðan 2004 og er vel yfir skilgreindum aðgerðarmörkum (MSY Btrigger).
Árgangar 2008–2014 eru metnir litlir og því er áætlað að viðmiðunarstofn og hrygningarstofn minnki árin 2018 og 2019 þegar þeir fara að koma inn í veiðina.
Í stofnmatinu í ár eru bæði viðmiðunarstofn og hrygningarstofn metnir minni yfir langt tímabil en í stofnmati undanfarinna ára (um 12%). Í stofnmatinu í ár er fiskveiðidánartala metin hærri en áður var talið. Ástæður þessara breytingar eru að stofnmat undanfarinna ára hafði ekki náð fullri samleitni. Stofnmatið í ár er eftir ítarlega könnun talið hafa náð fullri samleitni. Talsverð óvissa er í stofnmati gullkarfa vegna óvissu um nýliðun, sem og um samgang gullkarfa milli Íslands og Grænlands.