Höfnin í Þorlákshöfn í mikilli uppbyggingu

Deila:

„Ferjusiglingarnar milli Þorlákshafnar og Rotterdam hafa gengið mun betur en við þorðum að vona og nú höfum við gert sex ára samning við Smyril Line Cargo um hafnaraðstöðu og þjónustu við ferjuna, ásamt 10 ára samningi um geymsluplön og aðra aðstöðu í landi,“ segir Hjörtur B. Jónsson hafnarstjóri, fullviss um að þar með sé þetta tilraunverkefni komið á traustan grunn sem segja má að hafi formlega hafist 7. apríl 2017, þegar Mykinesið kom í sína fyrstu ferð til landsins.

Þróunarsamningur vegna ferjusiglinganna var aðeins til eins ár til að byrja með en á þeim tíma hefur þjónustan svo sannarlega slegið í gegn.

„Það er alltaf fullt skip til landsins á föstudagsmorgnum og svo fer verulegt og vaxandi magn af ferskum fiski og eldislaxi út með skipinu á föstudagskvöldi í hverri viku. Tilkoma ferjunnar nýtist því vel þeim sem eru í útflutning á ferskfiski. Þeir geta klárað slátrun og frágangi fyrir vikulokin og varan er komin til viðskiptavina í Mið-Evrópu síðdegis á mánudegi, fyrir aðeins brot af því sem það myndi kosta að senda hana í flugi,“ segir Hjörtur.

Þorlákshöfn vel í sveit sett

Höfnin í Þorlákshöfn hefur verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár með það að meginmarkmiði að auka þjónustuhæfni hennar, s.s. vegna vöruflutninga. Frá Þorlákshöfn eru góðar samgönguleiðir á landi til allra átta og aðeins 40 km til Reykjavíkur og 85 km á Keflavíkurflugvöll. Samhliða uppbyggingu hafnarinnar hefur verið ráðist í skipulagningu á lóðum fyrir iðnað og þjónustu, bæði við höfnina og í upplandi hennar og einnig fyrir íbúðarhúsnæði.

„Það hafa mörg fyrirtæki sýnt áhuga á atvinnulóðum hjá okkur, með það í huga að flytja starfsemi hingað en þau hafa þó fram til þessa haldið að sér höndum og hafa kannski viljað sjá hvert framhaldið yrði varðandi ferjusiglingarnar,“ segir Hjörtur og bætir við að með tilkomu nýja samningsins við Smyril Line Cargo sé einsýnt að þessi þjónusta sé komin til að vera í Þorlákshöfn.

Vöxtur er einnig í allskyns örðum vöruflutningum til og frá landinu um Þorlákshöfn að sögn Hjartar en þaðan er flutt út mikið magn af virkri og svörtum sandi til Evrópu, sem notaður er í steinullarframleiðslu og mikill innflutningur er m.a. á allskyns byggingarefni, áburði og ýmsum örðum varningi.

Þörf á frekari hafnarframkvæmdum

þorlákshögn bryggjan

„Þrátt fyrir þær framkvæmdir sem þegar er búið að ráðast í er okkur nú farið að vanta fleiri viðlegukanta fyrir flutningaskipin og jafnvel skemmtiferðaskip, sem vilja koma til okkar og því höfum við sótt um fjármagn til ríkisins vegna áframhaldandi uppbyggingar og endurnýjunar á viðleguköntum,“ segir Hjörtur.

Þar er brýnast að fara í endurbætur á Svartaskersbryggju því viðlegukanturinn þar, sem er um 250 metra langur, er orðinn mjög lélegur vegna tæringar. Samhliða verður ráðist í dýpkunarframkvæmir svo stór skip geti lagst þar að án vandkvæða. Mikil þörf er líka á að lagafæra Suðurvararbryggju og lengja brimgarðinn þar um a.m.k. 200 metra.

„Það hafa allir skilning á því að ráðast þurfi í þessar framkvæmdir en það eru auðvitað margir um hituna þegar kemur að því að fá fjármagn frá ríkinu,“ segir hafnarstjórinn, vongóður um að eitthvað fjármagn skili sér frá ríkinu í þetta. Þá sé það ánægjuefni að sveitarfélagið hafi ekki þurft að stofna til skulda til að fjármagna sinn hlut í uppbyggingu hafnarinnar, heldur hafi það átt fyrir kostnaðarhlut hafnarsjóðs í þeim framkvæmdum.

„Þetta hefur bara allt gengið betur en við þorðum að vona. Til lengri tíma litið mun þetta gera sveitarfélagið okkar að enn eftirsóknarverðari stað til búsetu og ég er sannfærður um að mörg fyrirtæki muni sjá sér hag í því að færa rekstur sinn til okkar, bæði til að lækka kostnað og vegna mikils framboðs á atvinnulóðum á góðu verði. Hér búa rúmlega 2.100 manns í dag, þar af liðlega 1.600 í Þorlákshöfn og ef það er eitthvað sem við eigum nóg af hér í Sveitarfélaginu Ölfusi þá er það landrými, hvort sem er fyrir atvinnustarfsemi eða íbúðarhúsnæði,“ segir Hjörtur B. Jónsson hafnarstjóri að lokum.

 

 

Deila: