Kvótinn í Rússasjó að klárast

Deila:

Nær allar aflaheimildir íslenskra togara í Barentshafi eru nú uppveiddar. Allar heimildir innan norsku lögsögunnar hafa verið teknar en eitthvað er eftir innan þeirrar rússnesku. Skipin sem, héldu til veiða eftir sjómannadag eru hætt veiðum og eru þau síðustu að koma til landsins þessa dagana, Arnar HU og Kleifaberg.

Veiðin hefur verið heldur lakari en undanfarin ár, en engu að síður er til dæmis Kleifaberg RE nú með aflaverðmæti upp á 240 milljónir króna eftir 24 daga á veiðum. Kleifabergið hefur verið að veiða kvóta Brims og HB Granda og Arnar HU kom þar einnig við sögu auk þess að taka eigin kvóta. Kleifaberg mun því vera komið með 850 milljónir króna í aflaverðmæti út Barentshafinu á þessu ári. Miðað við óslægðan fisk er aflinn 3.200 tonn

Blængur NK kom til heimahafnar um síðustu helgi eftir að hafa klárað sinn hlut. Eina útgerðin sem á kvóta eftir í Rússasjónum mun vera Rammi hf. en Sólberg ÓF 1 er skráð með 584 tonna þorskkvóta innan lögsögu Rússlands miðað við slægðan fisk. Aðeins þessi fjögur skip voru með aflaheimildir í Rússasjónum í ár eftir tilfærslur milli skipa.

Deila: