Háafell sækir að nýju um regnbogasilungsleyfi

Deila:

Háafell, dótturfélag Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. hefur sótt að nýju um starfs- og rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og 200 tonna framleiðslu af þorski á ári í Ísafjarðardjúpi. Í júlí 2017 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfsleyfi Háafells fyrir sömu framleiðslu úr gildi vegna kæru veiðiréttarhafa. Tekið hefur verið tillit til þeirra annmarka sem úrskurðarnefndin rökstuddi sína ákvörðun með en þeir voru tæknilegs eðlis samkvæmt frétt á heimasíðu Hraðfrystihússins Gunnvarar.

„Frá árinu 2011 hefur Háafell stefnt að því að hafa leyfi til þess að ala bæði regnbogasilung og lax í Ísafjarðardjúpi og felst því engin stefnubreyting í umsókninni. Þvert á móti endurspeglar hún skýran vilja til þess að starfrækja áfram umhverfisvænt fiskeldi í Ísafjarðardjúpi líkt og fyrirtækin hafa gert síðan árið 2002.
Mikil þekking hefur skapast hjá starfsmönnum fyrirtækisins á rekstri slysalauss sjókvíaeldis undanfarin 16 ár sem mikilvægt er að missa ekki niður heldur nýta og byggja á til framtíðar og er umsóknin liður í því.

Háafell hefur lagt mikla vinnu í að mæta hagsmunum veiðiréttarhafa í gegnum 7 ára umsóknarferlið, á þann hátt að fiskeldið og nýting veiðivatnanna geti farið saman. Liður í því er útfærsla og tillögur um mótvægisaðgerðir sem byggja á bestu reynslu annarra eldisþjóða.
Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar uppbyggingaráform Háafells  og tillögur að mótvægisaðgerðum við Ísafjarðardjúp er bent á ítarlega matsskýrslu Háafells fyrir laxeldi,“ segir á heimasíðunni.

 

Deila: