Mannlaus kafbátur í trollinu!

Deila:

Mannlaus kafbátur, sem sækir fiskinn niður í trollpokann og skilar inn í móttöku togarans, var ein f þeim nýsköpunarhugmyndum, sem kynntar voru á Nor-Fishing sjávarútvegssýningunni í Þrándheimi nú í vikunni. Hugmyndin hlaut ekki verðlaun, en vakti verðskuldaða athygli.

Kafbátur í trollinu 2Hugmyndin er sú að  kafbátnum sé slakað með sérstökum kapli niður í trollið meðan togað er. Hann mun svo með aðstoð ýmissa nema meta hvenær hæfilegt magn af fiski er komið í pokann. Hann færir þá fiskinn yfir í flutningspoka, sem hann dregur upp og skilar inn í móttöku um borð í togaranum, sem er undir yfirborði sjávar og er full af kældum sjó. Meðan á þessu stendur heldur togarinn áfram að toga.

Hugmyndin að baki kafbátnum er að með þessu verði gæði aflans mun betri, því aldrei myndist of mikill þrýstingur í pokanum, sem getur marið fiskinn og farið illa með hann. Að auki geti togarinn haldið veiðum áfram, án þess að þurfa að vera að hífa og kasta trollinu oft a sólarhring. Hann þarf þá bara að hífa til að kippa milli veiðisvæða.

Útkoman verði þá hagkvæmari togveiðar, betra hráefni og betri stýring á aðgerð og vinnslu um borð.

 

Deila: