Allir í skýjunum með þessi nýju skip

Deila:

Viðey RE kom til Reykjavíkur í gærmorgun eftir velheppnaða veiðiferð á Vestfjarðamið. Senn líður að því að skipið, sem er einn þriggja nýrra ísfisktogara HB Granda, sé búið að vera í rekstri í þrjá mánuði og skipstjórinn er ekki í vafa um að skipin séu búin að sanna ágæti sitt.

,,Það eru allir í skýjunum með þessi nýju skip,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey í spjalli á heimasíðu HB Granda.

,,Ef eitthvað er þá hafa skipin farið fram úr okkar björtustu vonum. Þau eru ótrúlega öflug og færu létt með að draga tvö troll samtímis. Þau eru sömuleiðis miklu rólegri í sjó en gömlu skipin, stampa ekki og maður finnur ekki fyrir því þegar verið er að snúa þótt veðrið sé ekki gott.“

Svo vikið sé að nýliðinni veiðiferð þá segir Jóhannes Ellert að veður hafi fælt menn frá því að hefja veiðiferðina á heimamiðum.

,,Við fórum því á Vestfjarðamið og vorum að veiðum í kantinum út af  Patreksfirði norður á Hala. Aflinn var góður og við vorum alls með 180 tonna afla í túrnum,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson en hann upplýsir að heldur sé að draga úr gullkarfaveiði á Vestfjarðamiðum en góður gullkarfaafli hafi hins vegar fengist upp á síðkastið á Fjöllunum og öðrum heimamiðum ísfisktogara HB Granda úti fyrir SV-landi.

 

Deila: