Stærsti túr Blængs á Íslandsmiðum

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni 40 daga veiðiferð en hann millilandaði á Akureyri 27. september sl. Aflinn í veiðiferðinni var 900 tonn upp úr sjó eða 29.000 þúsund kassar. Aflaverðmætið er 225 milljónir króna.

Hér er um að ræða stærsta túr Blængs á Íslandsmiðum en uppistaða aflans var ufsi og karfi. Theodór Haraldsson var skipstjóri fyrstu tíu daga veiðiferðarinnar en síðan tók Bjarni Ólafur Hjálmarsson við. Að sögn Bjarna Ólafs var jöfn og góð veiði allan tímann.

Að löndun lokinni mun Blængur halda til Akureyrar þar sem skipið fer í slipp. Áformað er að gera nokkrar breytingar á millidekki skipsins og eins  verður skipt um togspil. Gert er ráð fyrir að skipið verði í slipp í fjórar vikur.
Ljósmynd Hákon Ernuson.

 

 

Deila: