Samkeppniseftirlitið heimilar kaup HB Granda á Ögurvík

Deila:

Samkeppniseftirlitið tilkynnti HB Granda í dag að það „teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar“ vegna kaupa félagsins á Ögurvík. Þar með eru allir fyrirvarar vegna kaupanna fallnir niður.
Kaupin, sem voru tilkynnt fyrir í haust, voru nokkuð umdeild. Var Kviku banka falið að yfirfara útreikninga HB Granda á hagkvæmni kaupanna að ósk Lífeyrissjóðsins Gildis, sem er einn af stærstu hluthöfum í HB Granda.

Fyrr í þessum mánuði á framhaldshluthafafund kynntu starfsmenn Kviku banka hf. samantekt minnisblaðs um fyrirhuguð kaup HB Granda á öllu hlutafé Ögurvíkur í samræmi við ákvörðun hluthafa á upphaflegum hluthafafundi í októbermánuði. Í kjölfarið var tekin fyrir tillaga stjórnar til hluthafafundarins um að staðfesta ákvörðun stjórnar um kaupin. Var tillagan samþykkt með 95,8% atkvæða þeirra hluthafa sem fundinn sátu. Á móti voru hluthafar sem höfðu að baki sér 4,2% þess hlutafjár sem mætt var fyrir á fundinum.
Helsta eign Ögurvíkur er togarinn Vigri og veiðiheimildir hans.

Deila: