Inn- og útflutningur frá Þorlákshöfn fer stöðugt vaxandi

Deila:

Vöruflutningar um höfnina í Þorlákshöfn eru stöðugt að aukast. Höfnin er því að breytast æ meira yfir í flutningahöfn, en Hjörtur Jónsson, hafnarstjóri, segir að þjónusta við fiskiskip sé mjög góð, enda fari það mjög vel saman að vera með hvorttveggja í senn fiski- og flutningahöfn. Þá sé töluvert af smábátum sem landi í Þorlákshöfn og stefnt sé að því að bæta aðstöðuna fyrir þá enn frekar. „Við stefnum á áframhaldandi uppbyggingu hafnarinnar og gera hana stærri, öruggari og betri. Það er markmiðið,“ segir Hjörtur.

Hjörtur Jónsson, hafnarstjóri í Þorlákshöfn er bjartsýnn á að umsvi í höfninni muni aukast verulega..

Mykines siglir til Rotterdam í Hollandi og Færeyja.

„Fiskiskipunum sem landa hér reglulega hefur heldur fækkað, en vöruflutningar að aukast. Öll jarðefni eins og sandur, vikur og rauðamöl, sem flutt er út fara héðan. Flutningaskipið Mykines hefur siglt hingað í rétt eitt og hálft ár. Það hefur gengið mjög vel en skipið fer héðan til Rotterdam  í Hollandi og kemur við í Færeyjum á leiðinni til Íslands. Það fer frá Þorlákshöfn á föstudagskvöldi og er komið til Rotterdam um miðjan dag á mánudegi. Flutningurinn með því er nokkuð jafn. Það er yfirleitt alltaf með fullfermi þegar það kemur hingað, vélar og tæki og alls konar varningur í vögnum, og útflutningur með því fer vaxandi. Það er aðallega ferskur fiskur og aðrar sjávarafurðir,“ segir Hjörtur.

Stefnt að enn frekari stækkun hafnarinnar

Nú er lokið nokkuð stórum áfanga í úrbótum á höfninni og nú er hafin vinna við að útfæra stækkun hafnarinnar enn frekar. „Siglingasvið Vegagerðarinnar er að byrja að vinna að hönnun á nýrri innsiglingu. Hún miðast að því að færa innsiglinguna út á dýpri sjó þannig að við náum að halda meira dýpi í innsiglingunni og höfninni. Við það verður höfnin bæði enn betri og aðkoman að henni sömuleiðis. Það er mikið verkefni,“ segir hafnarstjórinn.

„Hér hefur verið útbúið mikið svæði vegna vöruflutninga og erum að taka í gagnið ný vöruplön. Hér er því að skapast kjörin aðstaða fyrir fyrirtæki eins og í sjávarútvegi og önnur fyrirtæki sem flytja þurfa vörur til og frá landinu. Við höfum endalaust byggingarsvæði. Ég hugsa að hvergi á landinu eins og staðan er nú, sé betra að vera með stórt fiskvinnsluver eins og hér í Þorlákshöfn. Sveitarfélagið sem slíkt er orðið mjög kvótalítið, en ég hef þá trú að þar sem hagstæðast er að reka sjávarútvegsfyrirtæki, þangað komi þau. Á staðnum er svo bæði kæli- og frystigeymsla fyrir fisk og önnur matvæli. Hér er verið að klára skipulag fyrir talsvert af atvinnulóðum og lóðum fyrir íbúðarhúsnæði og mikið af íbúðum í byggingu.

Mjög góðar aðstæður

Aðstaðan hér er mjög góð, bæði hvað varðar landfræðilega staðsetningu og möguleika á útflutningi á sjó og í lofti. Þessi ferjuleið til Evrópu á sjálfsagt bara eftir að vaxa og héðan er stutt á flugvöllinn í Keflavík segir Hjörtur.

Viðtalið birtist áður í nýjasta tölublaði Ægis, sem helgað er 100 ár fullveldi Íslands.

 

 

Deila: