Betri staða fiskistofna við Færeyjar

Deila:

Nýliðun í stofnum þorsk og ýsu við Færeyjar er nú farin að aukast eftir fjölmörg léleg ár.  Nýjasta stofnstærðarmat færeysku Hafrannsóknastofnunarinnar sýnir að árgangar beggja tegundanna 2016 eru yfir meðallagi og árgangarnir frá 2017 enn stærri. Stærð beggja stofnanna er nú komin yfir varúðarmörk. Gert er ráð fyrir því að vöxturinn haldi áfram á þessu ári.

Ufsastofninn hefur ekki dregist jafnmikið saman undanfarin ár og stofnar þorsks og ýsu, en nýliðun hans hefur engu að síður verið léleg. Þrátt fyrir það er stærð hans yfir líffræðilegum varúðarmörkum.  Nýliðun þriggja ára ufsa er þó undir meðallagi.

Æti í hafinu umhverfis Færeyja var mjög mikið á síðasta ári og mikið um sandsíli, bæði ungviði og í þorsk- og ýsumögum. Á þessu ári var ætið minna og minna um sandsíli. Kannanir á magainnihaldi þorsks og ýsu sýna að minna hefur verið um sandsíli seinni hluta sumars í ár og hefur því fiskurinn tekið króka betur.

Stjórnun fiskveiða miðast við að taka þann hluta hvers stofns sem metinn er að gefa mestan afrakstur. Veiðihlutfall er nú metið 19% í þorski, 14% í ýsu og 24% í ufsa.

Færeyingar notast við dagakerfi við stjórnun veiðanna og er það hlutverk Hafrannsóknastofnunarinnar að leggja til fjölda veiðidaga fyrir hverja tegund byggt á hæfilegu veiðihlutfalli.

Á síðasta ári var veiðihlutfall fyrir helstu fisktegundirnar mun hærra en áætlað væri að gefa mesta varandi afla. Stofnunin leggur nú til að ónotaðir veiðidagar verði teknir út úr kerfinu, en það svarar til 40% af leyfilegum dagafjölda 2016/2017

Að auki er lagt til að veiðidögum fyrir alla skipa- og bátaflokka verði fækkað um 30%. Það er meiri niðurskurður en markmiðið til lengri tíma er. Skýringin á því er sú að gert er ráð fyrir meiri veiðanleika á króka  á næsta ári, þar sem mun minna er um sandsíli nú en síðustu ár.

Þá er lagt til að yngstu árgangar þorsks og ýsu verði friðaðir með svæðalokunum.

Þorskstofninn á Færeyjabanka stendur enn illa og lagt er til að engar veiðar á þorski verði leyfðar þar. Staða annarra fiskistofna á Bankanum er þó betri og rætt er um að leyfa takmarkaðar veiðar á þeim á næsta ári.

 

 

Deila: