Fjögurra trolla veiðitækni fyrir fiskiskip framtíðarinnar

Deila:

Margt forvitnilegt bar fyrir augun í nýafstaðinni ferð Hampiðjunnar og gesta í tilraunatankinn í Norðursjávarmiðstöðinni í Hirtshals í Danmörku. Þar á meðal var fjögurra trolla veiðitækni fyrir rækjuveiðar sem Cosmos Trawl í Hirtshals hefur hannað en fyrirtækið er eitt hlutdeildarfélaga Hampiðjunnar. Var helmingur af nýja fjórtrollinu sýndur í tilraunatanknum og fór það ekki framhjá neinum að um byltingarkennda nýjung er að ræða. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hampiðjunnar.

Cosmos Trawl hefur um áratuga skeið verið í fararbroddi í þróun og framleiðslu rækjuveiðiútbúnaðar. Fyrst í stað einbeittu menn sér að þróun hefðbundinna rækjutrolla eins og Íslendingar þekkja hvað best. Síðan var þróuð tækni til veiða með tveimur trollum samtímis. Þá urðu trollin þrjú talsins og núna hefur Cosmos Trawl komið fram með lausn sem gerir kleift að veiða með fjórum trollum og fjórum toghlerum samtímis ásamt miðlóði, og auka aflann án þess að það komi niður á hagkvæmni veiðanna.

Að sögn Thorleifs Grønkjær, sölustjóra Cosmos Trawl, er tilgangurinn með þessu nýja veiðikerfi sá að auka breidd trollsvæðisins um allt að 33%, miðað við veiðar með þremur trollum. Til útskýringar má nefna að í þríkerfinu er miðað við þrjú 3000 möskva troll sem alls eru 120 metrar að ummáli. Með fjórum 2600 möskva trollum, sem eru 104 metrar að ummáli næst að auka togbreiddina úr 210 metrum í þrítrollakerfinu í alls 280 metra.

,,Höfuðlínuhæð 2600 möskva trollanna er 7,5 metrar sem hæfir vel í Barentshafinu þar sem rækjan er frekar botnlæg árið um kring. Með þessum trollstærðum teljum við að viðnámið verði það sama og í þríkerfinu, með samsvarandi fjórum léttari toghlerum af gerðinni Thyborøn type 23, miðlóði og þrjátíu metra löngum gröndurum,“ segir Thorleif en þess má geta að við það að taka á brott minni hlerana og setja lóð í staðinn að þá myndi hleramillibilið minnka um 30 metra samtals.

Hið nýja kerfi er fullbúið til notkunar en enn sem komið er hefur það ekki verið tekið í notkun á neinum rækjuveiðitogara. Thorleif segir eðlilegar ástæður liggja til grundvallar. Ekkert fiskiskip hafi verið hannað og smíðað til að toga með fjórum trollum samtímis.

,,Við hugsum til framtíðar og það kemur vonandi fljótlega að því að hönnuð og smíðuð verði skip sem ráða við fjórkerfið. Það verða fiskiskip framtíðarinnar,“ segir Thorleif Grønkjær.

Deila: