Stöðugt minni losun frá fiskveiðum

Deila:

Olíunotkun og fiskiskipa og útblástur þeirra af CO2 hefur minnkað mikið á síðustu árum. Á sama tíma hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda hér á landi stóraukist á heildina litið. Fjallað er um þetta í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi:

„Þrátt fyrir háværa umræðu um loftlagsbreytingar og skaðleg áhrif gróðurhúsalofttegunda, hefur útblástur þeirra stóraukist hér á landi. Á flestum sviðum. Samkvæmt nýjum  tölum Hagstofunnar var heildarlosun á koltvísýringi (CO2) frá hagkerfinu tvöfalt meiri á árinu 2016 en hún var árið 1995. Umsvif í hagkerfinu á hverjum tíma hafa mikil áhrif á útblástur CO2, líkt og myndin hér fyrir neðan ber glögglega með sér.

… en tvöfaldast frá hagkerfinu

Ákjósanlegra væri ef umsvifin í hagkerfinu gætu aukist án þess að það leiddi til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Sú niðurstaða er afar sjaldgæf á meðal atvinnugreina á Íslandi. Einn er sá geiri sem hefur þó náð þeim árangri að draga úr losun CO2 án þess að það komi niður á framleiðslu. Það er íslenskur sjávarútvegur. Fram til ársins 2003 var losun CO2 frá sjávarútvegi mest allra geira en samhliða bættri fiskveiðistjórnun, fjárfestingu í tækjum og búnaði, fækkun skipa sem þó eru stærri og nýtnari og auknum umsvifum annarra geira hefur sú staða gjörbreyst.

Þetta hefur leitt til þess að heildarlosun CO2 frá sjávarútvegi og matvælaiðnaði var ríflega 48% minni árið 2016 en árið 1995. Þar af dróst losunin frá fiskveiðum og fiskeldi saman um tæp 43% og losun frá fiskvinnslu og öðrum matvælaiðnaði um 71%. Eins og sjá má þá er fiskeldi meðtalið inn í þessum tölum um fiskveiðar, en umsvif þess hefur stóraukist á undanförnum árum. Gefur því auga leið að samdrátturinn í losunin frá fiskveiðum einum og sér er talsvert umfram þessi 43%. Var hlutdeild sjávarútvegs og matvælaiðnaðar af heildarlosun CO2 í hagkerfinu komið niður í 9% árið 2016 en hafði verið 35% árið 1995.

Minnkar enn frekar

Orkustofnun hefur birt tölur um olíunotkun hér á landi sem ná fram til ársins 2017 og gefa þær góða mynd af því hvernig ofangreindar tölur Hagstofunnar um losun CO2 koma út fyrir það ár. Niðurstaðan er því miður ekki hagfelld fyrir hagkerfið í heild sinni, en samkvæmt þeim hefur heildarnotkun olíu á Íslandi aldrei verið meiri en hún var í fyrra í að minnsta kosti 36 ár, eða eins langt aftur og tölur Orkustofnunar ná. Nam notkunin 965 þúsund tonnum á árinu og jókst um rúm 96 þúsund tonn frá fyrra ári, eða sem nemur rúmum 11%. Á sama tíma var olíunotkun í sjávarútvegi sú minnsta á tímabilinu og dróst olíunotkun fiskiskipa saman um rúm 6% á milli ára.“

 

 

 

 

Deila: