Hvalveiðar – sjálfbær nýting

Deila:

„Sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu næstu fimm árin. Ákvörðunin er skynsamleg,“ segir í nýrri færslu á heimasíðu samtaka í sjávarútvegi,.

„Það hefur verið stefna SFS að nýta beri lifandi auðlindir sjávar við Ísland, enda byggist nýtingin á vísindalegum grunni, hún sé sjálfbær, lúti eftirliti og í samræmi við alþjóðalög. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum Hafrannsóknarstofnunar er mikið af langreyði við Ísland. Hvalveiðar Íslendinga lúta raunar aðeins að stórum stofnum í góðu ástandi, það er langreyði og hrefnu.

Það aflamark sem mælt er með af hálfu sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar er vel innan þeirra marka sem almennt er miðað við að tryggi sjálfbæra nýtingu úr hvalastofnum. Veiðarnar eru því ótvírætt í samræmi við meginregluna um sjálfbæra nýtingu.

Það er ljóst að deilan um nýtingu hvals snýst ekki lengur um hvað sé forsvaranlegt út frá sjálfbærri nýtingu, heldur hvað fólki finnst. Það getur verið erfitt að takast á um tilfinningar, enda sýnist sitt hverjum, eins og vonlegt er. SFS hafa hins vegar þá afstöðu að skynsamlegra sé að leggja vísindi, fremur en tilfinningar, til grundvallar þegar kemur að nýtingu sjávarauðlinda,“ segir í færslunni.

Deila: