Nýr samningur HÍ og Matís um rannsóknir, nýsköpun og kennslu
Í gær var undirritaður nýr samningur á milli Háskóla Íslands og Matís ohf um rannsóknir, nýsköpun og kennslu.
Með samningi þessum vilja Matís og HÍ leggja grunn að enn frekari eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis með nánu samstarfi á sviði rannsókna og nýsköpunar. Í því skyni verður lögð áhersla á samstarf í rannsóknum og nýsköpun, m.a. á leiðbeiningu meistara- og doktorsnema í verkefnum tengdum Matís og samstarfi um nýtingu rannsóknatækja og búnaðar.
Hlutverk Háskóla Íslands er að bera faglega ábyrgð á námi, kennslu, námsefni, efnistökum, prófum, veitingu prófgráða við námslok og að sjá til þess að starfsfólk sem annast kennslu og rannsóknir á vegum HÍ standist akademískar kröfur.
Tenging menntunar og starfsþjálfunar við atvinnulíf og samfélag er rauði þráðurinn í samstarfi Matís við menntastofnanir. Hlutverk Matís að stunda rannsóknir og nýsköpun í þágu atvinnulífs, lýðheilsu og matvælaöryggis er haft að leiðarljósi. Tilgangurinn samstarfsins er að:
- auka hæfni og möguleika starfsfólks í rannsóknun og að vera með í og leiða innlend og alþjóðleg verkefni með áherslu á hagmuni Íslands.
- mennta og þjálfa upp starfsfólk fyrir íslenskan matvælaiðnað og íslenskt samfélag
- samnýta starfsfólk, aðstöðu og búnað til að geta yfirleitt stundað öflugar rannsóknir á hagkvæman hátt
- geta aflað, framkvæmt og skilað verkefnum fljótt og vel
Það er gert með því að:
- ráða sameiginlegt starfsfólk
- ráða nemendur í doktorsnám í verkefni á vegum Matís sem í flestum tilfellum eru unninn í samvinnu við fyrirtæki á Íslandi
- bjóða nemendum upp á verkefni í mastersnámi sem eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og/eða stofnanir