Okkar besta ár

Deila:

Áhöfnin á togaranum Gullver frá Seyðisfirði hefur heldur betur verið að gera það gott að undanförnu. Á síðasta ári lönduðu þeir meiru en nokkru sinni áður, um það bil tvöfalt meiru en það sem var vaninn áður en Síldarvinnslan keypti útgerðina og meiri kvóti kom á skipið. „Árið  hjá okkur í fyrra gekk mjög, okkar besta ár. Við lönduðum 6.100 tonnum, sem er það langmesta sem við höfum borið að landi,“ segir Rúnar Gunnarsson, annar skipstjóranna á Gullver.

Skipið dugar vel

„Ég byrjaði á Gullver þegar hann kom nýr til Seyðisfjarðar frá Noregi 1983. Þá var ég búinn að vera hjá fyrirtækinu frá 1976. Ég byrjaði þar vorið 1976 á gamla Gullver og  var þar í eitt sumar. Við fengum svo Gullberg, togarann  sem varð svo Otto Whatne, 1977 og vorum þar í sex ár þar til við fengum þennan 1983. Skipið er búið að vera að segja má óbreytt frá því það kom og það dugar bara mjög vel. Við erum mjög ánægðir með það. Viðhaldið hefur verið gott og skipið fer vel með mann,“ segir Rúnar.  En bætir við: „Ég var reyndar búinn að fá nóg í hitteðfyrra og fór í land. Ég prufaði að vera hafnarvörður í eitt ár, en það gekk ekki upp, svo ég fór á sjóinn aftur og geri ráð fyrir að þrauka eitthvað áfram.“

Rúnar Gunnarsson skipstjóri á Gullver er búinn að vera á skipinu síðan það kom nýtt til landsins. Hann er ánægður með gang mála síðustu misserin.

Halda sig „heima“ að mestu

Þeir á Gullberginu eru ekki þekktir til að sækja langt yfir skammt. Þeir stunda sín heimamið og hafa alla tíð gert. „Við höfum öll þessi ár sótt miðin hér fyrir austan og ekkert farið annað en tvö síðustu ár, þá höfum  við farið vestur á Selvogsbankann. Nú megum við veiða meiri þorsk en við máttum gera áður. Því höfum við tekið þrjá fóra túra vestur frá í mars og apríl. Við erum annars mest á veiðunum frá Lóndýpi og Berufjarðarál í suðri og austur í Litla Dýpi og á fætinum. Á haustin náum við svo norður á flökin, Tangaflakið, Gerpisflakið, Seyðisfjarðardýpið og stundum Digranesflak.

Nægur kvóti

Það breyttist töluvert þegar Síldarvinnslan kom kom inn í fyrirtækið, Það er nægur kvóti, sérstaklega eftir að Síldarvinnslan seldi Barðann, sem þeir höfðu verið með á ísfiski. Þá færðust meiri heimildir yfir til okkar, en auk þess á Síldarvinnslan útgerð Vestmannaeyjar og Bergeyjar í Vestmannaeyjum.“

Rúnar segir að síðasta ár hafi verið mjög gott í þorskinum, en spurningin sé hvort það minnki eitthvað, komi engin loðna. „Við höfum aðeins orðið varir við hana í trollinu en ekki meira en svo að það er nánast hægt að telja hana. Þorskurinn hefur bara verið í einhverri átu núna úti í Seyðisfjarðardýpi þar sem við höfum verið eftir áramótin.“

 

 

Deila: