Rússar helstu kaupendur sjávarafurða frá Færeyjum

Deila:

Rússland er það land, sem Færeyingar reiða sig mest á í útflutningi sjávarafurða. Á síðasta ári keyptu Rússar fiskmeti frá Færeyjumm að andvirði 36 milljarða íslenskra króna. Það er meira en fjórðungur af öllu útflutningsverðmæti frá Færeyjum. Íslendingar eru útilokaðir frá rússneska markaðnum vegna stuðnings okkar við viðskiptabann vesturveldanna á Rússland.

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum á síðasta ár nam 134 milljörðum íslenskra króna, og er það um 16 milljarða samdráttur miðað við árið 2017. Þetta er umtalsverður samdráttur en undanfarin tvö ár þar á undan jókst útflutningsverðmætið um 30 milljarða króna.

Mestur varð samdrátturinn nú í útflutningi til Þýskalands, verðmætið féll um 9,6 milljarða íslenskra króna. Samdráttur í sölu til Rússlands var 7 milljarðar og til Hollands og Belgíu um 4,8 milljarðar króna. Verðmæti útfluttra afurða til Kína hækkaði á hinn bóginn um 3,3 milljarða og til Danmerkur um 2,4 milljarða.

Sé litið tíu ár aftur í tímann hefur útflutningsverðmættið hækkað á hverju ári og á árinu 2018 voru fluttar út fiskafurðir fyrir 68 milljörðum meira en árið 2009. Það er meira en tíföldun verðmætisins. Í magni mælt hefur vöxturinn verið minni, eða um 56% síðustu tíu árin.

Eins og áður sagði er Rússland það land, sem kaupir mest af sjávarafurðum frá Færeyjum, eða fyrir 36 milljarða íslenskra króna. Næstir koma Bretar, sem borga Færeyingum 15 milljarða fyrir fiskmetið. Það eru um 11% af heildinni. Hlutdeild Bandaríkjanna, Danmerkur og Kína er svo 9% hvers lands fyrir sig.  Sala sjávarafurða til Rússlands margfaldaðist frá árinu 2011 til 2014. Það ár varð Rússland fyrst stærsti kaupandi fiskafurða frá Færeyjum með 16% heildarinnar, en árin þrjú þar á undan var hlutfallið aðeins 3%.

 

Á síðasta ári var lax um 58% af útflutningnum til Rússlands, en afgangurinn var að mestu síld og makríll. Sala til Kína hefur einnig vaxið hratt á sama tíma. Hlutfallið fór úr 2% í 6% og síðan í 9% í fyrra. Þar er laxinn um 80% heildarinnar.

Útflutningur til Bretlands og Danmerkur hefur dregist saman í magni síðustu tíu árin, en verðmætið hefur nokkurn veginn haldist. Þorskur var þriðjungur þess sem selt var til Bretlands og lax sömuleiðis. Til Danmerkur fer mest af laxi.

Verðmæti útfluttra afurða til Bandaríkjanna hefur legið á bilinu 7% til 12% síðustu tíu árin mælt í magni. Verðmætið hefur hins vegar farið úr 5,4 milljörðum í 12,5. 95% af þessum útflutningi er lax.

Nýjustu tölur um útflutninginn fyrir janúar síðastliðinn sýna að viðsnúningur hefur orðið og í stað samdráttar milli áranna 2017 og 2018 fer útflutningurinn vaxandi. Þar sem útflutningsverðmæti getur af ýmsum ástæðum verið breytilegt milli mánaða gefur það skýrari mynd að bera saman þrjá mánuði í einu, það er nóvember, desember og janúar. Þá kemur í ljós að um 18% vöxt er að ræða og þar gerir laxinn gæfumuninn.

 

Deila: