Áform í uppnámi

Deila:

Áform um 20 þúsund tonna laxeldi í Eyjafirði eru í uppnámi ef nýtt frumvarp nær fram að ganga, segir framkvæmdastjóri Akvafuture. Burðarþolsmat fyrir fjörðinn gæti legið fyrir í haust. Þetta segir hann í samtali við ruv.is

Akvafuture áformar laxeldi í Eyjafirði og hyggst beita nýrri tækni með lokuðum kvíum. Fyrirtækið hefur verið við rannsóknir síðustu mánuði, sem eru hluti af umhverfismati. Skipulagsstofnun samþykkti matsáætlun fyrirtækisins um 20 þúsund tonna laxeldi á ári, á sex stöðum, þótt burðarþolsmat liggi ekki fyrir.

Samkvæmt nýju fiskeldisfrumvarpi sjávarútvegsráðherra mun Hafrannsóknastofnun skipta fjörðum eða hafsvæðum í eldissvæði. Þau verði síðan boðin út á grundvelli burðarþols og áhættumats. Við mat á tilboðum verði meðal annars litið til upphæðar, reynslu af fiskeldi, fjárhagslegra burða og umhverfissjónarmiða.

Halda að sér höndum

Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture, segir að frumvarpið setji strik í reikninginn. „Við komum til með að þurfa að bíða og sjá og halda að okkur höndum töluvert í því umhverfismati sem við erum nú þegar byrjaðir að vinna. Þannig að þetta getur tafið okkur töluvert og svo er óvissa um það hvert framhaldið verður,“ segir Rögnvaldur.

Enginn forgangur þrátt fyrir milljóna rannsóknir

Samkvæmt Hafrannsóknastofnun gæti burðarþol Eyjafjarðar og áhættumat í fyrsta lagi legið fyrir síðsumars eða í haust. Verði frumvarpið að lögum fyrir þann tíma er uppi mikil óvissa. „Það sem getur gerst er að við hættum við. Eins og frumvarpið lítur út í dag, þá höfum við engan forgang þrátt fyrir að við séum byrjaðir að vinna umhverfismat,“ segir Rögnvaldur.

Tugum milljóna hafi verið varið í umhverfismat og annan undirbúning. „Við gætum tapað þessari vinnu sem við þegar erum þegar búnir að leggja í,“ segir hann.

 

Deila: