„Frumvarp sem mismunar útgerðum”
Stjórn Landssambands smábátaeigenda krefst þess að tekið verði tillit til aðstöðumunar við fullvinnslu frumvarps sjávarútvegsráðherra um stjórnun veiða á makríl á komandi vertíð. Samkvæmt frumvarpinu verður makríl úthlutað samkvæmt aflareynslu á 11 ára tímabili, en fyrstu ár þess tímabils gátu smábátar ekki stundað makrílveiðar, þar sem hann gekk ekki inn á grunnslóðina.
Þessi krafa var samþykkt á stjórnarfundi LS og er samþykktin svohljóðandi:
„Frumvarp um stjórn makrílveiða hefur verið kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er gert ráð fyrir að aflamarki verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar samkvæmt veiðireynslu á 11 ára tímabili.
Smábátaeigendur hófu fyrst veiðar á makríl að einhverju marki árið 2013. Tímabil veiðireynslu á hins vegar að vera 2008 – 2018. Stjórn LS lýsir undrun yfir að hér hafi verið kynnt frumvarp sem mismunar útgerðaraðilum eftir stærð og aðstöðu til veiða. Smábátaeigendur höfðu engin tök á að afla sér veiðireynslu á fyrri hluta tímabilsins þegar makríllinn var á fjarlægum miðum, langt utan farsviðs þeirra.
Stjórn LS krefst þess að tekið verði tillit til þessa aðstöðumunar við fullvinnslu frumvarpsins.“