Brottkast með öllu ólíðandi

Deila:

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir það með öllu ólíðandi að menn fylgi ekki lögum og verði uppvísir að brottkasti. Endurskoðun á regluverki og eftirliti með brottkasti er þegar hafin samkvæmt frétt á ruv.is

Kristján Þór segist fagna auknu samstarfi og eftirliti með þessum brotum. „Hins vegar er það algjörlega ólíðandi að menn fari ekki að lögum sem sett hafi verið um umgengni við þetta mikilvæga verk það er að segja þá heimild til að taka afla úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.“

Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, sagði í fréttum í gær að breyta þurfi reglum um grásleppuveiðar til að minnka brottkast. Gefa þurfi sjómönnum tækifæri á að fresta grásleppuveiðum ef mikill þorskur finnist í netum og auka þurfi VS aflaheimildir. Hann gagnrýndi aðkomu Fiskistofu og sagði þar engan vilja til að finna lausn á málunum.

Kristján segist ekki hafa upplýsingar um samskipti Landssambandsins og Fiskistofu. „Það hefur lengi það orð á að það sé mikið um brottkast við grásleppuveiðar, á tilteknum svæðum og á tilteknum tíma, þetta er breytilegt eftir aðstæðum hverju sinni. Það kann vel að vera að við þurfum að gera einhverjar breytingar á regluverkinu til þess að liðka fyrir um þetta en það er í rauninni ekki hægt að vísa á einhvern annan þegar menn fara á svig við lögin, alveg sama á hvaða sviðum það er.“

Kristján segir að vinna við endurskoðun á regluverkinu sé þegar hafin. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar í janúar var eftirlit með brottkasti og regluverki gagnrýnt. „Í kjölfarið á þessari skýrslu hef ég hafið vinnu það er verkefnisstjórn að störfum sem á að skila okkur tillögum, vonandi á haustmánuðum sem að miða að því að styrkja eftirlitið og bæta úr þeim vankvæmdum sem komu fram meðal annars í skýrslu ríkisendurskoðunar.“

Deila: