Góð kolmunnaveiði vestan Suðureyjar

Deila:

Víkingur AK var í gær á landleið til Vopnafjarðar með um 2.550 tonn af. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra fékkst aflinn í sjö holum sunnarlega í færeysku lögsögunni.

,,Við tókum fyrsta holið suðvestan við Suðurey en veiðin færðist svo norðar. Við enduðum vestan við Suðurey um hádegisbilið í gær og veiðin hefur verið mjög góð. Reyndar var eitt holið frekar lélegt, 100 tonn, en annars vorum við yfirleitt að fá 400 til 500 tonn í holi,“ segir Albert í samtali á heimasíðu HB Granda, en honum líst vel á framhaldið.

,,Það gengur örugglega eitthvað af kolmunna inn í íslensku landhelgina en það er með hann eins og annan. Hann fylgir straumum, hitaskilum og æti. Kolmunninn hér syðra er yfirleitt mjög dreifður en við leitum að blettunum þar sem hann þéttir sig.“

Að sögn Alberts er yfirborðshitinn á veiðisvæðinu frá u.þ.b. sex og upp í átta gráður. Nokkuð vantar upp á að sá hiti sé kominn á veiðislóð fyrir austan land og er rætt var við Albert var yfirborðshitinn í Héraðsflóa ekki nema 4,2°C.

,Heilt yfir erum við mjög ánægðir með vertíðina. Veiðin er góð og kolmunninn hefur verið stór og gott hráefni. Það gengur á kvótann en ég reikna með að staðan verði metin um sjómannadag hvað varðar framhaldið. Júní var ekki góður í fyrra, hvað svo sem gerist nú,“ segir Albert Sveinsson.

Deila: